11. jún. 2013

Nýr miðbær Garðabæjar

Uppbygging í miðbæ Garðabæjar hófst að nýju í dag þriðjudaginn 11. júní kl. 14 þegar fyrsta skóflustungan var tekin að bílakjallara á Garðatorgi. Það var Erling Ásgeirsson formaður bæjarráðs sem settist í sæti gröfunnar og tók fyrstu skóflustunguna.
  • Séð yfir Garðabæ
Uppbygging í miðbæ Garðabæjar hófst að nýju í dag þriðjudaginn 11. júní kl. 14 þegar fyrsta skóflustungan var tekin að bílakjallara á Garðatorgi.  Það var Erling Ásgeirsson formaður bæjarráðs sem settist í sæti gröfunnar og tók fyrstu skóflustunguna. Það er fyrirtækið Klasi sem stýrir verkefninu samkvæmt samningi við Garðabæ.  Verktakafyrirtækið ÞG Verktakar sjá um framkvæmd á fyrsta áfanga verksins, þ.e. bílakjallara.  Að lokinni skóflustungu bauð verslunin Víðir gestum og gangandi upp á veitingar í göngugötunni með aðstoð ungmenna úr sumarátaki ungs fólks í Garðabæ.

Uppbygging miðbæjarins hófst árið 2007 með byggingu nýs verslunarkjarna við Litlatún. Frekari framkvæmdum var frestað haustið 2008 en hefjast nú að nýju í kjölfar breytinga á deiliskipulagi miðbæjarsvæðis, sem bæjarstjórn Garðabæjar  samþykkti í lok síðasta árs. Í nýju deiliskipulagi hefur byggingarmagn verið minnkað, íbúðum fækkað og tekin ákvörðun um að Garðatorg 1 standi áfram og verði því hluti af miðbænum til framtíðar. Markmið nýs deiliskipulags er það sama og áður, að skapa nýjan lífvænlegan miðbæ í Garðabæ. Skipulagið gerir ráð fyrir samblandi af íbúðum, verslunum og þjónustu á svæðinu vestan við Garðatorg 7, þar sem bílastæði og opið svæði eru nú.

Meginhugmyndin gerir ráð fyrir þriggja til átta hæða byggingum sem umlykja líflegt bæjartorg sem ætlað er að verða vettvangur margvíslegra atburða í bæjarlífinu.  Á horni Vífilsstaðavegar og Bæjarbrautar verður íbúðarhús með verslun og þjónustu á jarðhæð.  Á lóð vestan við Hönnunarsafnið, samhliða Bæjarbrautinni verður fjölbýlishús þar sem eingöngu verða íbúðir en alls er gert ráð fyrir 80 – 90 nýjum íbúðum við Garðatorgið.

 Hér á vef Garðabæjar er hægt að sjá nánari upplýsingar um framkvæmdirnar við nýjan miðbæ Garðabæjar.