Bæjarlistamaður Garðabæjar 2013
Ingibjörg Guðjónsdóttir er bæjarlistamaður Garðabæjar árið 2013. Erling Ásgeirsson formaður bæjarráðs Garðabæjar tilkynnti um hver væri bæjarlistamaður Garðabæjar árið 2013 á Menningaruppskeruhátíð Garðabæjar sem var haldin í samkomuhúsinu að Garðaholti fimmtudaginn 30. maí sl. Allt frá árinu 1992 hefur Garðabær veitt styrk til listamanns eða listamanna. Sá aðili sem fyrir valinu verður hefur fengið þann heiður að vera nefndur bæjarlistamaður Garðabæjar.
Viðurkenningar afhentar
Á menningaruppskeruhátíðinni sem nú var haldin í annað sinn voru jafnframt veittar viðurkenningar til ungra og efnilegra listamanna í Garðabæ sem fengu úthlutaða styrki úr Hvatningarsjóði ungra listamanna til að vinna að ýmsum menningarverkefnum í Garðabæ. Einnig var Ragnheiður Jónsdóttir myndlistarmaður heiðruð fyrir starf sitt á sviði lista og menningar á liðnum árum.
Við þetta tækifæri var undirrituð yfirlýsing um áframhaldandi samstarf við félagið Gróskuog myndlistarmenn í Grósku settu upp skemmtilega ,,örmyndlistasýningu“ í hlöðunni við bæinn Krók á Garðaholti. Að lokinni menningaruppskeruhátíð var boðið upp á leiksýningu í Garðakirkju með Þórunni Clausen sem var útnefnd bæjarlistamaður Garðabæjar í fyrra.
Um bæjarlistamann Garðabæjar 2013
Ingibjörg Guðjónsdóttir hóf söngnám við Tónlistarskóla Garðabæjar hjá Snæbjörgu Snæbjarnardóttur og lauk þaðan burtfararprófi árið 1986. Aðeins nítján ára gömul sigraði hún Söngkeppni Sjónvarpsins og ávann sér þátttökurétt í hina frægu söngkeppni Cardiff Singer of the World. Ingibjörg stundaði framhaldsnám við Indiana University í Bandaríkjunum en einnig hefur hún notið leiðsagnar Kirsten Bühl-Möller og rúmönsku söngkonunnar Ileana Cotrubas.
Ingibjörg hefur haldið fjölda einsöngstónleika, tekið þátt í tónlistarhátíðum og verið einsöngvari með sinfóníuhljómsveitum, kammersveitum og kórum, bæði hér á landi og erlendis. Ingibjörg hefur sungið á íslensku óperusviði; í La Boheme eftir Puccini, Skuggaleik, óperu eftir Karólínu Eiríksdóttur og Farfuglinum, óperu eftir Hilmar Þórðarson. Sl. ár hefur Ingibjörg verið iðin við flutning samtímatónlistar og frumflutt m.a. verk eftir Karólínu Eíríksdóttur, Hauk Tómasson, Þorkel Sigurbjörnsson og Þórð Magnússon.
Um tíma starfaði Ingibjörg í Kaupmannahöfn en auk fjölbreyttra söngverkefna þar í borg, stofnaði hún Íslenska kvennakórinn í Kaupmannahöfn sem hún stjórnaði í tvö ár. Ingibjörg hefur gefið út tvær geislaplötur; Óperuaríur (2005) með Sinfóníuhljómsveit Íslands, undir stjórn Gerrit Schuil, og Ó Ó Ingibjörg (2007) þar sem hún syngur íslensk sönglög í frumlegum búningi með bræðum sínum, djasstónlistarmönnunum Óskari og Ómari.
Ingibjörg er söngkennari við Tónlistarskóla Hafnarfjarðar og stjórnandi Kvennakórs Garðabæjar sem hún stofnaði árið 2000. Ingibjörg hefur í gegnum starf sitt sem stjórnandi Kvennakórs Garðabæjar staðið fyrir mörgum menningaruppákomum í Garðabæ á liðnum árum. Einnig hefur hún starfað með félaginu Dægradvöl á Álftanesi sem hefur í gegnum tíðina staðið fyrir fjölbreyttum menningarviðburðum á Álftanesi.
Á liðinni önn hefur Ingibjörg verið listrænn stjórnandi tónleikaraðarinnar Þriðjudagsklassík sem er ný tónleikaröð haldin í samstarfi við menningar- og safnanefnd í sal Tónlistarskóla Garðabæjar. Framundan eru tónleikar með Ingibjörgu sjálfri þriðjudaginn 4. júní þar sem hún flytur íslensk og erlend sönglög og óperuaríur frá námsárum í Tónlistarskóla Garðabæjar hjá Snæbjörgu Snæbjarnardóttur söngkennara.