Vann gullið fimmta árið í röð
Hofsstaðaskóli fékk gullverðlaunin í fimmta sinn fyrir fjölda innsendra hugmynda í Nýsköpunarkeppni grunnskóla (NKG) árið 2013. Níu nemendur skólans lentu í verðlaunasætum í keppninni.
Hofsstaðaskóli vann farandbikar keppninnar til eignar árið 2011 og vinnur nú nýja farandbikarinn í annað sinn. Markmiðið er að sjálfsögðu að vinna hann til eignar á næsta ári. Í máli forseta Íslands, sem afhenti verðlaunin í keppninni, kom fram að árangur Hofsstaðaskóla væri með ólíkindum og að aðrir skólar gætu lært af honum.
16 nemendur Hofsstaðaskóla tók þátt í vinnusmiðju NKG sem haldin var í Háskólanum í Reykjavík 23. og 24. maí, en það eru fleiri nemendur en nokkru sinni áður. Þar áttu þeir stefnumót við vísindamenn frá HR og HÍ. Nemendur voru sammála um að það hafi verið mjög gaman að taka þátt í vinnusmiðjunni og mikil upphefð fyrir þá.Alls voru veitt 12 verðlaun í fjórum flokkum íkeppninni. Verðlaunin voru ekki af verri endanum, m.a. iPad, teikniborð fyrir tölvur og námskeið í forritun hjá Skema. Auk þess fengu 12 stigahæstu þátttakendurnir námskeið hjá Háskóla unga fólksins og hjá Fab Lab. Níu nemendur Hofsstaðaskóla voru í verðlaunasætum eins og fyrr segir.
Á myndinni eru tveir nemendur Hofsstaðaskóla með farandbikarinn ásamt Sædísi Arndal, smíðakennara í Hofsstaðaskóla og nýskipuðum menntamálaráðherra Illuga Gunnarssyni.
Sjá nánar á vef Hofsstaðaskóla, þar eru líka fleiri myndir frá verðlaunaafhendingunni.