23. maí 2013

Njóta sín í góðgerðarstarfi

Nemendur í 8. bekk í Garðaskóla hafa undanfarnar vikur lagt Fjölskylduhjálp Íslands lið. Verkefnið er samstarfsverkefni heimila, skólans og góðgerðasamtaka
  • Séð yfir Garðabæ
Nemendur í 8. bekk í Garðaskóla hafa undanfarnar vikur lagt Fjölskylduhjálp Íslands lið. Verkefnið er samstarfsverkefni heimila, skólans og góðgerðasamtaka og hefur það gengið vel og vakið mikla ánægju allra hlutaðeigandi.

Tilgangur verkefnisins er að virkja unglingana í þágu góðs málefnis og leyfa þeim að læra og njóta sín í góðgerðarstarfi. Lögð er áhersla á að þátttakan byggi á vinnuframlagi og hugviti barnanna en ekki peningasöfnun þar sem þiggjendur eru í meiri fjarlægð. Jafnframt að verkið nýttist í okkar nærsamfélagi. Þannig varð Fjölskylduhjálp Íslands fyrir valinu í þetta skiptið. Nemendur, foreldrar og starfsfólk skólans hafa unnið saman í að láta gott af sér leiða.

Bökuðu kanilsnúða

Stærsta verkefnið í vor var að baka kanilsnúða í heimilisfræði og dreifa til fjölskyldna sem fengu matargjafir hjá Fjölskylduhjálp Íslands nokkra miðvikudaga í maí. Snúðum sem nemendur höfðu bakað var pakkað í poka með handskrifuðum kveðjum frá Garðaskóla. Það var sérstaklega ánægjulegt að sjá hversu vel var tekið á móti flottum krökkum. Sjálfboðaliðar hjá Fjölskylduhjálp Íslands leiðbeindu unglingunum og þiggjendur gjafanna sýndu mikið þakklæti og sendu unglingunum góðar kveðjur.

Krakkarnir vinna nú að því að mála stóla fyrir nýja aðstöðu Fjölskylduhjálparinnar í Breiðholti. Börnin hafa gefið sinn tíma, skólinn skaffar leiðsögn og hráefni, foreldrar sjá um akstur til Fjölskylduhjálpar og allir uppskera.

Draumur forráðamanna verkefnisins er að álíka verkefni verði hluti af samstarfi foreldra og barna næstu árin, enda er af mörgum mikilvægum verkefnum að taka.