21. maí 2013

Greinargerð um Álftanesveg lögð fram

Sameiginleg greinargerð Vegagerðarinnar og Garðabæjar um forsendur nýs Álftanesvegar var lögð fram á fundi bæjarráðs í morgun.
  • Séð yfir Garðabæ

Sameiginleg greinargerð Vegagerðarinnar og Garðabæjar um forsendur nýs Álftanesvegar var lögð fram á fundi bæjarráðs í morgun.

Í niðurstöðum skýrslunnar kemur fram að það sé sameiginleg niðurstaða bæjarstjórnar Garðabæjar og Vegagerðarinnar að ekki sé ástæða til að breyta frá fyrri ákvörðun um verkframkvæmdir við Álftanesveg. Í skýrslunni er lýst því sjónarmiði bæjaryfirvalda í Garðabæ að með sameiningu Garðabæjar og Sveitarfélagsins Álftaness verði uppbygging á Garðholti sett framar í forgangsröðunina en ella.

Niðurstaðan er því sú að engar breytingar hafi orðið eða séu fyrirhugaðar á skipulagi eða þróun byggðar sem breyti forsendum fyrir færslu Álftanesvegar. 

Umræða var um greinargerðina á fundinum og komu fram athugasemdir frá Ragnýju Þóru Guðjohnsen og Steinþóri Einarssyni. Erling Ásgeirsson, formaður bæjarráðs gerði tillögu um að bæjarráð samþykkti niðurstöður skýrslunnar og að hún yrði send ráðherra. Tillagan var samþykkt með tveimur atkvæðum en Ragný Þóra greiddi atkvæði gegn samþykkt hennar. Sjá fundargerð bæjarráðs frá 21. maí.

Greinargerð Vegagerðarinnar og Garðabæjar var unnin fyrir innanríkisráðherra en í bréfi hans til bæjarins dags. 22. apríl sl. var óskað eftir því að Vegagerðin og Garðabær færu sameiginlega að nýju yfir forsendur vegarins og könnuðu hvort unnt væri að vinna að samgöngubótum í meiri sátt við málsvara náttúruverndar.

Fundargerð bæjarráðs verður tekin fyrir á fundi bæjarstjórnar 6. júní sl.

Greinargerð Vegagerðarinnar og Garðabæjar