9. maí 2014

Skemmtilegir listadagar

Listadagar barna og ungmenna voru haldnir í Garðabæ dagana 24. apríl - 4. maí sl. Föstudaginn 2. maí var haldin listadagahátíð á Vífilsstaðatúni fyrir nemendur úr leik- og grunnskólum í Garðabæ.
  • Séð yfir Garðabæ

Listadagar barna og ungmenna voru haldnir í Garðabæ  dagana 24. apríl - 4. maí sl.  Á listadögunum var fjölbreytt dagskrá í skólum í Garðabæ þar sem gestir og gangandi gátu kíkt við í heimsókn.  Auk þess voru settar upp sýningar í anddyrum íþróttamiðstöðvanna, bókasafninu og víðar. 

Föstudaginn 2. maí var haldin listadagahátíð á Vífilsstaðatúni fyrir nemendur úr leik- og grunnskólum í Garðabæ. Hátt í 1400 börn voru mætt á túnið í blíðskaparveðri til að skemmta sér í tilefni af listadögunum. Börnin sungu saman nokkur vel valin lög, þar á meðal Enga fordóma, eurovision lagið undir dyggri stjórn Góa við undirleik Ómars Guðjónssonar.  Gói var kynnir á hátíðinni og tók líka lagið sjálfur.  Boðið var upp á atriði úr  Hungurleikunum, söngleik Garðalundar og hátíðin endaði á flottum atriðum frá Sirkus Íslands.

Á fésbókarsíðu Garðabæjar er einnig hægt að sjá fleiri myndir frá hátíðinni á Vífilsstöðum.

Framundan er einnig margt um að vera hjá unga fólkinu í Garðabæ en nú standa yfir aukasýningar á söngleiknum Hungurleikunum í Garðaskóla/Garðalundi og uppselt er á allar sýningar.  Nemendur í lokaáfanga á myndlistarbraut úr Fjölbrautaskólanum í Garðabæ eru með sýningu á lokaverkum sínum í Gróskusalnum á Garðatorgi (2.hæð við hliðina á versluninni Víði) sýningin stendur til og með mánudagsins 12. maí og í kvöld 9. maí halda fatahönnunarnemendur í FG tískusýningu á lokaverkefnum á Kjarvalsstöðum kl. 20.