2. maí 2014

Lærðu um núvitund og mikilvægi tímastjórnunar

Um hundrað stjórnendur leikskóla í Garðabæ, Hafnarfirði, Kópavogi, Mosfellsbæ og á Seltjarnarnesi sátu námskeið í sal Tónlistarskóla Garðabæjar 29. apríl
  • Séð yfir Garðabæ

Um hundrað stjórnendur leikskóla í Garðabæ, Hafnarfirði, Kópavogi, Mosfellsbæ og á Seltjarnarnesi komu saman í Tónlistarskóla Garðabæjar þann 29. apríl. Var um að ræða árlegan fund þeirra en þessi sveitarfélög eru í samstarfi um endurmenntun starfsfólks leikskóla og um rannsóknir á leikskólastarfi.

Núvitund og leitin að hamingjunni

Á fundinum fjallaði Ásdís Olsen, lektor við Háskóla Íslands um núvitund og leitina að hamingjunni. Fyrirlestur hennar var hagnýtur og áhrifaríkur og miðaði að því að efla vellíðan, hugarró og sátt kennara og auka hæfni þeirra til að vinna með heilbrigði og velferð á vettvangi, (sbr. grunnþátt menntunar samkvæmt Aðalnámsskrá). Þáttakendur læra æfingar sem miða að hugarró og sjálfsþekkingu og fá tækifæri til að endurskoða hugarfar sitt, afstöðu og viðbrögð. Lögð er áhersla á framkvæmd og hagnýtar æfingar og tól í verkfærakistuna til að nýta í lífi og starfi.

Tímastjórnun

Gunnar Einarsson bæjarstjóri hélt einnig erindi á fundinum þar sem hann fjallaði um hlutverk stjórnenda, tímastjórnun og mikilvægi þess að forgangsraða til að ná settum markmiðum.
Hann benti skólastjórnendum á að taka frá tíma til að gera áætlanir og á nauðsyn þess að temja sér að deila verkefnum, setja tímamörk og að læra að segja nei.