5. apr. 2013

Skólakjarni leikskólans Sjálands í húsnæði Sjálandsskóla

Skólakjarni leikskólans Sjálands verður starfræktur í húsnæði Sjálandsskóla áfram næstu þrjú árin
  • Séð yfir Garðabæ

Skólakjarni leikskólans Sjálands verður starfræktur í húsnæði Sjálandsskóla áfram næstu þrjú árin skv. samningi sem bæjarráð samþykkti nýlega. 

Leikskólinn Sjáland hefur starfrækt skólakjarna leikskólans í húsnæði Sjálandsskóla sl. þrjú ár og mun halda því áfram á næstu árum. Næsta vetur verða börnin á skólakjarna um 40 talsins.

Í skólakjarna nýta börnin sér alla þá kosti sem húsnæði Sjálandsskóla býður upp á. Börnin fara á sundnámskeið undir stjórn Önnu Díu sundkennara, þau nýta sér íþróttarými skólans og heimsækja bókasafnið reglulega. Einnig koma eldri nemendur til þeirra og lesa fyrir börnin á kjarnanum.

Á meðal þess sem börnin fá við eru markviss málörvun, stafainnlögn, enskukennsla og stærðfræðinám með Numikubbum. Einnig er náttúran sem umlykur skólann nýtt í kennslu.

Börnunum finnst líka gaman að heimsækja yngri börnin í leikskólanum Sjálandi og leika þar bæði á útisvæðinu og inni.