22. mar. 2013

Lokahátíð Stóru upplestrarkeppninnar

Lokahátíð Stóru upplestrarkeppninnar fór fram í samkomuhúsinu á Garðaholti í Garðabæ þriðjudaginn 19. mars sl. Nemendur úr sjöunda bekk í Garðabæ og Seltjarnarnesi kepptu á lokahátíðinni.
  • Séð yfir Garðabæ

Lokahátíð Stóru upplestrarkeppninnar fór fram í samkomuhúsinu á Garðaholti í Garðabæ þriðjudaginn 19. mars sl. Nemendur úr sjöunda bekk í Garðabæ og Seltjarnarnesi kepptu á lokahátíðinni.

Á lokahátíðinni fengu 11 nemendur úr Flataskóla, Hofsstaðaskóla, Sjálandsskóla, Vífilsskóla og Valhúsaskóla (grunnskóli Seltjarnarness) að spreyta sig á upplestri á fyrirfram ákveðnum texta.  Í ár var lesið upp úr bókinni Benjamín dúfa eftir Friðrik Erlingsson og einnig voru lesin ljóð eftir Þóru Jónsdóttur ljóðskáld. Í síðustu umferðinni fengu nemendur einnig að lesa ljóð að eigin vali.

Lokahátíðin í Garðabæ

Á lokahátíðinni sem fór fram í Garðabæ var boðið upp á fjölmörg skemmtiatriði meðal annars frá Tónlistarskóla Garðabæjar og einnig voru allir skólar sem tóku þátt með skemmtiatriði þar sem boðið var upp á söng og tónlistarflutning.  Í lok hátíðar afhenti Gunnar Einarsson bæjarstjóri Garðabæjar öllum lesurunum bók að viðurkenningu fyrir þátttökuna. Að vanda var erfitt að velja þrjá lesara úr hópnum en formaður dómnefndar Hanna Óladóttir tilkynnti um val dómnefndar í lokin og afhenti sigurvegurunum viðurkenningu Radda samtaka um vandaðan upplestur og framsögn ásamt peningaverðlaunum. 
Í fyrsta sæti var Egill Breki Scheving úr Valhúsaskóla, í öðru sæti var Silja Jónsdóttir einnig úr Valhúsaskóla og í þriðja sæti var Jón Alfreð Sigurðsson úr Vífilsskóla (Barnaskóla Hjallastefnunnar).

Stóra upplestrarkeppnin um land allt

Lokahátíðir Stóru upplestrarkeppninnar eru haldnar um land allt í mars mánuði en undirbúningur hefst formlega á degi íslenskrar tungu þann 16. nóvember og nemendur læra að leggja rækt við góðan upplestur. Hátíðarhlutinn er það sem kalla mætti hina eiginlegu „keppni“. Hann er í tvennu lagi. Annars vegar er upplestrarhátíð í hverjum skóla í lok febrúar þar sem einn til þrír nem­endur eru valdir til áframhaldandi þátttöku í keppninni fyrir hönd skólans. Stóru upplestrarkeppni lauk svo formlega með lokahátíðinni á Garðaholti í mars.