8. mar. 2013

Kynning á 5 ára bekk

Kynning á skólastarfi í 5 ára bekk Flataskóla verður í skólanum fimmtudaginn 14. mars kl. 18
  • Séð yfir Garðabæ

Kynning á skólastarfi í 5 ára bekk Flataskóla verður í skólanum fimmtudaginn 14. mars kl. 18.

Flataskóli hefur í meira en 50 ár sérhæft sig í kennslu nemenda á aldrinum 6-12 ára. Fimm ára nemendur bættust í nemendahópinn sl. haust og hefur það starf gengið ákaflega vel.

Flataskóli er fámennur skóli þar sem unnið er af miklum metnaði og áhersla lögð á notalegt andrúmsloft, umhyggju og góðan árangur. Í skólanum eru persónuleg samskipti á milli nemenda, starfsfólks og foreldra.

Í 5 ára bekknum er lögð áhersla á að „nám er leikur“. Í gegnum leikinn er fengist við lestrarnám, stærðfræði, náttúrufræði, list- og verkgreinar, vísindi, félagslega hæfni og skapandi viðfangsefni. Áhersla hefur verið á markvisst útinám og hreyfingu. Í og við Flataskóla er góð aðstaða til kennslu list- og verkgreina og íþrótta. Deildarstjóri og aðalkennari 5 ára barnanna er bæði leik- og grunnskólakennari.

Starfsemi 5 ára bekkjarins tekur mið af lögum um leikskóla og skólastefnu Garðabæjar. Boðið er upp á sveigjanlegan vistunartíma barnanna í skólanum eins og í leikskólum bæjarins (lágmarksvistun er þó frá klukkan 8:30 – 14:00). Gjald er það sama og fyrir leikskóladvöl á öðrum leikskólum bæjarins.
5 ára hópurinn er til húsa í suðurálmu Flataskóla sem er sérhönnuð með þarfir yngri barna í huga. Í suðurálmunni fer einnig fram starf með nemendum í 1. bekk en náið samstarf og flæði er á milli þessarar tveggja aldurshópa.

Við ætlum að kynna starfið í 5 ára bekk fyrir áhugasömum foreldrum og forráðamönnum fimmtudaginn 14.mars klukkan 18:00 í Flataskóla. Einnig má hafa sambandi við okkur beint í síma 5658560/6171570 eða á netföngin olofs@flataskoli.is – thora@flataskoli.is til að fá allar helstu upplýsingar.

Ólöf Sigurðardóttir, skólastjóri Flataskóla