30. apr. 2014

Listadagafjör áfram

Listadagar barna og ungmenna í Garðabæ eru nú í fullum gangi. Föstudaginn 2. maí verður haldin listadagahátíð kl. 12:30 á Vífilsstaðatúni.
  • Séð yfir Garðabæ

Listadagar barna og ungmenna í Garðabæ eru nú í fullum gangi en þeir hófust á sumardaginn fyrsta og standa fram til 4. maí. Þema listadaganna að þessu sinni er ,,sagnalist“.   Fyrstu listadagar í Garðabæ voru haldnir árið 2003 en frá 2006 hafa þeir verið á tveggja ára fresti.  Á listadögunum er hægt að heimsækja skóla í bænum og sjá það skapandi starf sem þar fer fram.

Fjölbreyttar sýningar

Í íþróttamiðstöðvunum Ásgarði og Álftanesi er hægt að sjá verk eftir leik- og grunnskólanemendur í anddyrunum.  Einnig er listsýning á Bókasafni Garðabæjar á Garðatorgi þar sem sýnd eru verk leik- og grunnskólanemenda.  Að auki er hægt að skoða listsýningar leikskólabarna í Okkar bakarí í Iðnbúð og einnig í Pizzunni í Smiðsbúð. 

Söngleikur í Garðaskóla og öflug listnámsbraut í FG

Söngleikurinn Hungurleikarnir var frumsýndur í listadagavikunni og á vefsíðu Garðalundar, www.gardalundur.is er hægt að sjá upplýsingar um næstu sýningar og
miðasölu. 
Í Fjölbrautaskólanum í Garðabæ eru öflugar listnámsbrautir og listnámið heldur úti fésbókarsíðu þar sem sjá má það helsta sem er á döfinni hverju sinni: www.facebook.com/Listnamfg

Opið hús í Króki á Garðaholti – fimmtudaginn 1. maí

Í tilefni af Listadögunum verður opið hús í burstabænum Króki á Garðaholti.  Bílastæði eru við samkomuhúsið á Garðaholti.  Í Króki eru varðveitt gömul húsgögn og bærinn sýnir vel húsakost og lifnaðarhætti alþýðufólks á fyrri hluta 20. aldar.  Boðið verður upp á föndur fyrir börn á staðnum, ókeypis aðgangur.   

Listadagahátíð á Vífilsstaðatúni – föstudag 2. maí

Í hádeginu föstudaginn 2. maí, kl. 12:30, verður haldin listadagahátíð barna á túninu við Vífilsstaði.  Þangað er elstu börnum leikskóla ásamt grunnskólabörnum í Garðabæ boðið að koma og skemmta sér í um klukkustund.  Gói verður kynnir og sungin verða sameiginleg lög, flutt verður atriði úr Hungurleikunum og endað verður á flottu atriði frá Sirkus Íslands. 

Opið hús í leikskólum - laugardag 3. maí

Laugardaginn 3. maí verður opið hús í leikskólum í Garðabæ á vef Garðabæjar, www.gardabaer.is má sjá hvaða leikskólar eru opnir og hvenær þennan dag í dagskrá listadaganna.   Þennan dag gefst fjölskyldum, og öllum þeim sem áhuga hafa, gott tækifæri til að kynna sér leikskólana og starf þeirra. Börnin hafa mjög gaman af því að bjóða vinum og vandamönnum í heimsókn í leikskólann sinn og sýna þeim stolt og ánægð það, sem þau hafa verið að gera yfir veturinn. 

Söguganga og örtónleikar

Laugardaginn 3. maí verður einnig haldið í sögugöngu á vegum Bókasafnsins og Tónlistarskólans.  Lagt verður af stað kl. 11 frá bókasafninu á Garðatorgi í létta klukkutíma göngu um söguslóðir Tónlistarskólans í Garðabæ í tilefni af 50 ára afmæli skólans.  Að lokinni göngu verður endað í núverandi húsnæði skólans við Kirkjulund þar sem boðið verður upp á örtónleika og veitingar. 

Dagskrá listadaganna er aðgengileg hér á vefnum.