27. feb. 2013

Skátafélagið Svanir 30 ára

Skátafélagið Svanir á Álftanesi átti 30. ára afmæli 22. febrúar síðastliðinn.
  • Séð yfir Garðabæ

Skátafélagið Svanir á Álftanesi átti 30. ára afmæli 22. febrúar síðastliðinn. Félagið hélt upp á afmæli sitt með fjölskylduhátíð laugardaginn 23. febrúar og með skátamessu og hátíðarkaffi sunnudaginn 24. febrúar.

Á laugardeginum var boðið upp á kassaklifur í íþróttasalnum á Álftanesi, ásamt því að boðið var upp á trúðakast, sykurpúðagrillun og fleira skemmtilegt. Þar skemmtu sér saman börn, fullorðnir og skátar á öllum aldri, en við vorum svo heppin að við fengum frábæra gesti úr skátafélaginu Vífli í heimsókn.

Á sunnudeginum byrjaði hátíðin á skátamessu í Bessastaðakirkju en þar þjónuðu saman Sr. Hans Guðberg Alfreðsson, núverandi félagsforingi Svana og Sr. Birgir Thomsen, fyrrverandi félagsforingi Svana. Bragi Björnsson skátahöfðingi hélt ræðu í messunni. Skátahöfðingi heiðraði einnig skáta úr foringjahópi og stjórn fyrir vel unnin störf í gegnum árin.

Eftir messu var haldið í hátíðarsal íþróttahússins þar sem haldin var afmælisveisla. Í afmælið komu góðir gestir en meðal þeirra voru fyrstu flokksforingjar í skátafélaginu, þeir Magnús Orri Schram, Rúnar Gíslason og Haukur Hlíðkvist Ómarsson. Einnig var gaman að sjá alla félagsforingja Svana í gegnum árin 30, fyrir utan þann fyrsta.

Myndir af hátíðarhöldunum er hægt að sjá á facebook síðu skátafélagsins undir Skátafélagið Svanir.