Samið við Arcus ehf. um innanhússfrágang
Garðabær hefur samið við fyrirtækið Arcus ehf. um að ljúka innanhússfrágangi við hjúkrunarheimilið á Sjálandi.
Samningi við Hamarsfell rift vegna vanefnda
Verkið var áður í höndum Hamarsfells byggingarfélags ehf. en fyrr í mánuðinum tilkynnti Garðabær Hamarsfelli um riftun samningsins sem byggir á verulegum vanefndnum af hálfu verktaka við framkvæmd verksins. Einnig er byggt á því að fyrirsjáanlegt sé að verktaki sé ekki fær um að standa við skuldbindingar sínar um að ljúka verkinu.
Þekkja vel til verksins
Fyrirtækið Arcus ehf., sem nú hefur tekið við verkinu annaðist uppsteypu hússins og utanhússfrágang. Fyrirtækið og starfsmenn þess þekkja því vel til verksins og er það mat Garðabæjar að með samningnum við Arcus takist best að lágmarka það tjón sem riftunin kann að hafa í för með sér. Jafnframt hefur verið samið við alla lykil undirverktaka um áframhaldandi vinnu við verkið.
Undir kostnaðaráætlun
Áætluð verkstaða vegna innanhúsfrágangs er við riftun samnings metin um 80 – 83% og samkvæmt því á eftir að framkvæma verkþætti fyrir rúmlega 100 mkr. Áætluð niðurstaða heildarframkvæmdakostnaðar við byggingu hússins er um 1.550 mkr sem vel undir upphaflegri kostnaðaráætlun vegna verksins.
Stefnt er að því að hjúkrunarheimilið á Sjálandi taki til starfa í apríl. Þar verða einstaklingsíbúðir fyrir 60 vistmenn og mun Garðabær reka heimilið.