21. jan. 2013

Vel mætt á skólaþing

Góð mæting var á þingi um skólamál sem var haldið föstudaginn 18. janúar í Urðarbrunni í Fjölbrautaskólanum í Garðabæ. Á þinginu var rætt um hvernig auka megi samfellu í námi barna og ungmenna í Garðabæ, frá leikskóla til stúdentsprófs.
  • Séð yfir Garðabæ

Góð mæting var á þingi um skólamál sem var haldið föstudaginn 18. janúar í Urðarbrunni í Fjölbrautaskólanum í Garðabæ.  Á þinginu var rætt um hvernig auka megi samfellu í námi barna og ungmenna í Garðabæ, frá leikskóla til stúdentsprófs.  Páll Hilmarsson formaður skólanefndar setti þingið og bauð þátttakendur velkomna.
Þorsteinn Þorsteinsson, fyrrverandi skólameistari FG, var framsögumaður á þinginu en hann og Gunnlaugur Sigurðsson, fyrrverandi skólastjóri Garðaskóla hafa unnið greinargerð fyrir Garðabæ um ávinning af því að Garðabær taki að sér rekstur FG og um samfellu í námi barna og ungmenna. 

Þingið var opið öllum og um 80 manns tóku þátt í hópavinnu þingsins. Þátttakendum á þinginu var skipt niður á borð þar sem leitast var svara við eftirfarandi spurningum: Hvernig getum við byggt upp heildstætt skólasamfélag í Garðabæ fyrir börn og ungmenni frá 18 mánaða aldri til 18 ára? Hverjir eru kostir þess og annmarkar að Garðabær taki að sér rekstur Fjölbrautaskólans í Garðabæ sem lið í því að auka samfellu í námi barna og ungmenna? Þátttakendur gátu skrifað niður hugleiðingar á blöð og einnig fóru fram umræður við borðin þar sem hver og einn kynnti sínar hugleiðingar um þessar spurningar. 

Í lok fundar dró Gunnar Einarsson bæjarstjóri saman niðurstöður í stuttu máli og fékk til liðs við sig hópstjóra frá nokkrum borðum í salnum. Á næstunni verður unnið úr gögnum fundarins og nánari niðurstöður kynntar á heimasíðu Garðabæjar.

Greinargerð Þorsteins Þorsteinssonar og Gunnlaugs Sigurðssonar - frá september 2012.