17. jan. 2013

Ánægðir íbúar í Garðabæ

Íbúar Garðabæjar eru ánægðari með þjónustu sveitarfélagsins en íbúar annarra stærstu sveitarfélaga landsins. Ríflega 95% Garðbæinga eru ánægð með Garðabæ sem stað til að búa á og 89% segjast ánægð með þjónustu sveitarfélagsins í heild.
  • Séð yfir Garðabæ

Íbúar Garðabæjar eru ánægðari með þjónustu sveitarfélagsins en íbúar annarra stærstu sveitarfélaga landsins. Ríflega 95% Garðbæinga eru ánægð með Garðabæ sem stað til að búa á og 89% segjast ánægð með þjónustu sveitarfélagsins í heild.

Í könnun sem fyrirtækið Capacent gerði í október og nóvember árið 2012 voru íbúar í 16 stærstu sveitarfélögum landsins spurðir um ánægju þeirra með ýmsa þætti í þjónustu sveitarfélagsins. Sveitarfélögin fá einkunn fyrir hverja spurningu sem byggir á svörum íbúa. Garðabær fær hæstu einkunn af öllum sveitarfélögunum í svörum við sjö spurningum af tólf, hann er í öðru sæti í svörum við þremur spurningum, einu sinni í því þriðja og einu sinni í fjórða sæti.
Garðabær er efstur á blaði þegar spurt er um sveitarfélagið sem stað til að búa á, um ánægju með skipulagsmál, gæði umhverfis í nágrenni við heimili, þjónustu grunn- og leikskóla, þjónustu í heildina litið og um það hvernig starfsfólk hafi leyst úr erindum fólks.

Þrátt fyrir að útkoma Garðabæjar í sambærilegri könnun sem gerð var árið 2011 hafa verið afar góð tekst bænum að hækka einkunn sína í langflestum tilfellum. Einkunnir voru gefnar á kvarðanum 1-5 og er ánægjan því meiri sem gildið er hærra. Einkunnir Garðabæjar eru á bilinu 3,6- 4,6. Hæstu einkunnina gefa svör við spurningunni um ánægju með Garðabæ sem stað til að búa á og þar á eftir koma einkunnir fyrir spurningar um þjónustu leik- og grunnskóla. Alls eru 9 af 12 einkunnum Garðabæjar yfir 4.

Niðurstöður könnunarinnar eru starfsfólki og bæjarstjórn Garðabæjar hvatning til að halda áfram á sömu braut og gera jafnvel enn betur í þjónustu við íbúa í nýju sameinuðu sveitarfélagi.

Könnunin var gerð dagana 15. október - 29. nóvember 2012. Úrtakið var 8.189 manns þarf af 572 úr Garðabæ.

Skýrsla Capacent með ítarlegum niðurstöðum könnunarinnar fyrir Garðabæ.