24. apr. 2014

Listadagar barna og ungmenna framundan

Listadagar barna og ungmenna í Garðabæ verða haldnir í sjötta sinn dagana 24. apr – 3. maí. Dagskráin spannar um eina og hálfa viku og fer að miklu leyti fram í skólum bæjarins. Garðbæingar eru hvattir til að líta við í skólum bæjarins þessa daga og fylgjast með því skapandi starfi sem þar fer fram.
  • Séð yfir Garðabæ
Listadagar barna og ungmenna í Garðabæ verða haldnir í sjötta sinn dagana 24. apr – 3. maí.  Þema listadaganna að þessu sinni er ,,sagnalist“.   Dagskráin spannar um eina og hálfa viku og fer að miklu leyti fram í skólum bæjarins. Garðbæingar eru hvattir til að líta við í skólum bæjarins þessa daga og fylgjast með því skapandi starfi sem þar fer fram.  Ætlunin er að vekja athygli á því listræna starfi sem fer fram allt skólaárið með því að gera það sýnilegra þessa daga.

Sýningar í íþróttamiðstöðvum, bókasafni og víðar

Í leik- og grunnskólum bæjarins eru ýmis verk til sýnis í húsakynnum skólanna en auk þess ætla margir skólar að sýna verk utan skólanna.  Í anddyrum íþróttamiðstöðvanna í Ásgarði og Álftanesi eru listsýningar og einnig er hægt að skoða listaverk eftir nemendur í bókasafninu á Garðatorgi.  Leikskólinn Sunnuhvoll hefur sett upp sýningu í Okkar bakarí í Iðnbúð og leikskólinn Bæjarból verður með sýningu í Pizzunni í Smiðsbúð. 

Félagsmiðstöðin Garðalundur  og Garðaskóli hafa árlega sett upp söngleik/leikrit sem verður sýnt í Listadagavikunni. Sýningar verða auglýstar á vef Garðalundar, www.gardalundur.is og hafa þær ávallt verið vinsælar og vel sóttar.  

Listasmiðja í bókasafninu

Í Bókasafni Garðabæjar verður haldin listasmiðja fyrir börn og foreldra laugardaginn 26. apríl þar sem gömlum bókum verður breytt í listaverk.  Listasmiðjan er ókeypis en skrá þarf þátttöku fyrirfram á netfanginu helgasif@gardabaer.is  í síðasta lagi föstudaginn 25. apr. Sjá nánar hér.   

Öflugt listnám í FG

Í Fjölbrautaskólanum í Garðabæ er öflugar listnámsbrautir eins og myndlistarbraut, fata- og textílhönnunarbraut og leiklistarbraut.  Í lok apríl /byrjun maí verða haldnar lokasýningar nemenda af þessum brautum, sumar sýningar verða haldnar innan skólans en aðrar utan skólans.  Á fésbókarsíðu listbrautarinnar er hægt að fylgjast með ýmsu sem er í gangi hjá þeim:  www.facebook.com/Listnamfg 

Sameiginleg listadagahátíð - sirkusstemning

Föstudaginn 2. maí kl. 12:30 verður haldin sameiginleg hátíð á túninu við Vífilsstaði fyrir elstu börn leikskóla og nemendur í grunnskólunum.  Gói verður kynnir og Sirkus Íslands skemmtir áhorfendum.

Opið hús

Leikskólar í bænum verða með opið hús laugardaginn 3. maí þar sem gestir og gangandi geta kynnt sér leikskólanna og starf þeirra.  Í síðustu vikunni í apríl geta bæjarbúar einnig heimsótt skóla og skoðað þær sýningar sem þar eru á göngum og í stofum og allir eru velkomnir. 

Hér var stiklað á stóru í upptalningu á því sem verður í boði á listadögunum en allir geta kynnt sér dagskrána hér á heimasíðu Garðabæjar, einnig hefur dagskráin verið gefin út í bækling sem var dreift í hús í Garðabæ.