Nemendur úr Garðaskóla lásu
Þrír nemendur úr Garðaskóla lásu fyrir viðstadda þegar tilkynnt var um tilnefningu til Norrænu barnabókaverðlaunanna 2013.
Félag fagfólks á skólasöfnum tilnefnir bók til verðlaunanna. Að þessu sinni var það bókin Játningar mjólkurfernuskálds eftir Arndísi Þórarinsdóttur sem hlaut tilnefningu.
Athöfnin fór fram í Álfhólsskóla í Kópavogi. Þrír nemendur úr Garðaskóla, þær Karítas Marý Bjarnadóttir, Lovísa Rut Tjörvadóttir og Snædís Sunna Thorlacius lásu upp úr bókinni við athöfnina.
Afhent næsta sumar
Norrænu barnabókaverðlaunin verða afhent í Færeyjum næsta sumar en á vormánuðum mun koma í ljós hvaða barna- og unglingabók hlýtur þann heiður í ár. Verðlaunin eru heiðursverðlaun sem samtök norrænu skólasafnanna, Nordisk skolebibliotekarforening, og forstöðumenn þeirra hafa staðið að allt frá 1985.
Íslenskir rithöfundar hafa nokkrum sinnum hlotið þessi verðlaun og má þar nefna Guðrúnu Helgadóttur, Kristínu Steinsdóttur, Ragnheiði Gestsdóttur og Brynhildi Þórarinsdóttur.
Sjá einnig á vef Garðaskóla.