24. apr. 2014

Jazzhátíð Garðabæjar fer vel af stað

Jazzhátíð Garðabæjar hófst formlega með tónleikum í Kirkjuhvoli, safnaðarheimili Vídalínskirkju fimmtudagskvöldið 24. apríl. Þar stigu á svið tveir framúrskarandi jazztónlistarmenn þeir Agnar Már Magnússon á píanó og Björn Thoroddsen á gítar. Í kvöld föstudagskvöldið 25. apríl verða tónleikar í Kirkjuhvoli, safnaðarheimili Vídalínskirkju kl. 20:30.
  • Séð yfir Garðabæ

Jazzhátíð Garðabæjar hófst formlega með tónleikum í Kirkjuhvoli, safnaðarheimili Vídalínskirkju fimmtudagskvöldið 24. apríl. Áslaug Hulda Jónsdóttir formaður menningar- og safnanefndar bauð gesti velkomna og kynnti til leiks þá Agnar Má Magnússon á píanó og Björn Thoroddsen á gítar.  Báðir eru þeir fyrrum bæjarlistamenn Garðabæjar.  Þeir Agnar Már og Björn komu fram í sitt hvoru lagi og Agnar Már hóf dagskrána með verk eftir meðal annars Duke Ellington á píanó.  Eftir hlé tók Björn Thoroddsen við og var með fjölbreytt lagaval þar sem Bítlalög voru í forgrunni á gítar. Reynt var að búa til góða jazzklúbbastemningu og gestir gátu keypt léttar veitingar á staðnum.  Áhorfendur fóru glaðir út í sumrið að loknum frábærum tónleikum. 

Tónleikarnir voru þeir fyrstu á níundu Jazzhátíð Garðabæjar sem verður haldin dagana 24.-26. apríl. Hátíðin er haldin á vegum menningar- og safnanefndar Garðabæjar og listrænn stjórnandi hátíðarinnar er Sigurður Flosason tónlistarmaður. Styrktaraðili hátíðarinnar er Íslandsbanki í Garðabæ.

Í ár fara tónleikar hátíðarinnar fram á þremur mismunandi stöðum en allir kvöldtónleikar verða í Kirkjuhvoli, safnaðarheimili Vídalínskirkju. Dagskráin skartar fjölbreyttu úrvali íslenskra listamanna á ýmsum aldri og ólíkum stíltegundum jazztónlistar.  Sem fyrr er sérstök áhersla á listamenn sem tengjast Garðabæ en listamönnum alls ótengdum Garðabæ er einnig gert hátt undir höfði. 

Næstu tónleikar

Í kvöld föstudagskvöldið 25. apríl verða tónleikar í Kirkjuhvoli, safnaðarheimili Vídalínskirkju kl. 20:30.  Þar stígur á svið kvartett Hauks Gröndal og frumflytur nýja tónlist. Laugardaginn 26. apríl verða haldnir þrennir tónleikar, þeir fyrstu kl. 14 í Jónshúsi, félagsmiðstöð eldri borgara við Strikið 6 í Sjálandshverfinu, þar spilar kvartett Reynis Sigurðssonar.  Síðdegistónleikar hefjast kl. 17 á laugardeginum í Haukshúsi á Álftanesi (við golfvöllinn) þar sem tríó Richard G. Andersson kemur fram.  Hátíðinni lýkur svo um kvöldið með tónleikum í Kirkjuhvoli kl. 20:30 þegar Kvennakór Garðabæjar stígur á svið og flytur jazz með bræðrabandinu skipað þeim Óskari og Ómari Guðjónssyni ásamt meðspilurum.

Aðgangur er ókeypis á alla tónleika jazzhátíðarinnar, allir velkomnir á meðan húsrúm leyfir. Hægt verður að kaupa léttar veitingar á kvöldtónleikunum í Kirkjuhvoli og einnig í Haukshúsi.  Hér má sjá alla dagskrá hátíðarinnar. dagskrá hátíðarinnar.