25. okt. 2012

Evrópumeistarar úr Garðabæ

Átta stúlkur úr Stjörnunni eru í íslenska stúlknalandsliðinu sem vann Evrópumeistaratitil í hópfimleikum um helgina. Þjálfarar liðsins eru allir tengdir Garðabæ
  • Séð yfir Garðabæ

Garðbæingar komu ríkulega við sögu þegar Íslendingar hlutu tvenn gullverðlaun á Evrópumótinu í hópfimleikum í Danmörku um síðustu helgi.

Það var annars vegar stúlknalið Íslands og hins vegar kvennaliðið sem náðu þessum frábæra árangri.

Í stúlknaliðinu eru fjórtán stúlkur og af þeim eru átta úr Stjörnunni. Að auki eru þjálfarar liðsins allir úr eða búsettir í Garðabæ en þeir eru: Hrafnhildur Gunnarsdóttir, Stella Rósenkranz og Niclaes Jerkeholt.

Stóðust pressuna

Hrafnhildur Gunnarsdóttir er að vonum yfir sig ánægð með árangur sinna stúlkna.

"Við vissum að við vorum með sterkt lið í höndunum en við vissum ekki fyrirfram hvernig þeim gengi að standa undir þeirri pressu sem fylgir því að keppa á stórmóti," segir Hrafnhildur. Hún segist engu að síður hafa gert sér vonir um að liði næði á pall en að fyrsta sætið væri árangur sem færi jafnvel fram úr hennar björtustu vonum.

"Það voru önnur mjög sterk lið í keppninni svo þetta var að miklu leyti spurning um dagsformið og að standast pressuna. Við fórum inn í úrslitin í fyrsta sæti eftir undankeppnina en þá er byrjað aftur á núlli. Það fylgir því ákveðin pressa að koma fyrst inn eins og ég þekki sjálf frá mínum keppnisferli. En stúlkurnar voru ákveðnar í að ná þessu og fóru í einu og öllu eftir því sem þjálfararnir lögðu upp og þannig gekk allt upp í úrslitunum."

null

Góð aðstaða bætir árangur

Hrafnhildur segir að gott unglingastarf í fimleikum sé að skila þessum góða árangri núna. "Það er unnið mjög gott starf í fimleikum víða í dag. Aðstaðan hefur líka batnað mjög mikið á undanförnum árum og er orðin alveg í sérflokki í Evrópu. Það á ekki síst við í Garðabæ en við æfðum einmitt mikið í nýja fimleikahúsinu í Ásgarði. Þessi góða aðstaða hefur dregið til sín fjölda iðkenda og góða þjálfara. Það eru því bein tengsl á milli góðrar aðstöðu og góðs árangurs," segir hún að lokum.

 Á efri myndinni er stúlknalandsliðið með bikarinn. Fyrir framan stúlkurnar eru þjálfararnir, Hrafnhildur lengst til vinstri, þá Stella og Niclaes.

Fremst á neðri myndinni er Kolbrún Þöll Þorradóttir úr Stjörnunni.

Myndirnar eru frá Fimleikasambandi Íslands en þar má skoða fleiri myndir frá keppninni.

 Stúlkurnar í landsliðinu eru:
Agnes Þóra Sigþórsdóttir - Gerplu
Andrea Sif Pétursdóttir - Stjörnunni
Dóra Sóldís Ásmundardóttir - Stjörnunni
Eva Grímsdóttir - Selfossi
Harpa Guðrún Hreinsdóttir- Stjörnunni
Herdís Athena Þorsteinsdóttir - Gerplu
Hrafnhildur Hanna Þrastardóttir - Selfossi
Inga Aðalheiður Pétursdóttir- Gerplu
Inga Valdís Tómasdóttir- Stjörnunni
Kolbrún Þöll Þorradóttir- Stjörnunni
Margrét Lúðvigsdóttir - Selfossi
Sara Margrét Jóhannesdóttir- Stjörnunni
Sóley Ólafsdóttir- Stjörnunni
Þórey Ásgeirsdóttir- Stjörnunni

Þjálfarar:
Hrafnhildur M. Gunnarsdóttir
Niclaes Jerkeholt
Stella Rósenkranz