16. apr. 2014

Öldungaráð, umboðsmaður eldri borgara og fleiri bekkir

Ástbjörn Egilsson, formaður Félags eldri borgara í Garðabæ afhenti í dag Gunnari Einarssyni bæjarstjóra skýrslu með helstu niðurstöðum framtíðarþings um farsæl efri ár sem haldið var í Sjálandsskóla 8. apríl sl.
  • Séð yfir Garðabæ

Ástbjörn Egilsson, formaður Félags eldri borgara í Garðabæ afhenti í dag Gunnari Einarssyni bæjarstjóra skýrslu með helstu niðurstöðum framtíðarþings um farsæl efri ár sem haldið var í Sjálandsskóla 8. apríl sl. en þingið var haldið að frumkvæði félagsins.

Í skýrslunni kemur fram að þátttakendur á þinginu eru í heildina ánægðir með Garðabæ sem stað til að búa á. Í því samhengi nefndu margir nálægð við náttúruna og útivistarsvæði og fjölbreytt tækifæri til hreyfingar og likamsræktar. Þá kom fram að þjónustu bæjarins væri góð og að fólk upplifði nálægð við stjórnendur og starfsmenn bæjarins. Margir töluðu um að bærinn væri hæfilega stór og staðsetning hans á höfuðborgarsvæðinu góð.

Þátttakendur telja mikilvægt að búsetuúrræðum verði fjölgað og framboð aukið af minna húsnæði. Einnig að fólki verði gert kleift að búa heima hjá sér eins lengi og það vill. Fram kom mikilvægi þess að greiðar og góðar samgöngur væru í boði innan bæjarfélagsins og út í öll hverfin þannig að fólk kæmist auðveldlega leiðar sínar. Einnig að gönguleiðir væru mokaðar og fleiri bekkir settir upp við göngustíga.

Þátttakendur eru þeirrar skoðunar að gott væri að virkja eldri borgara betur til þátttöku og kalla eftir skoðunum og hugmyndum þeirra. Ýmsar hugmyndir voru nefndar m.a. öldungaráð, umboðsmaður eldri borgara og reglulegar viðhorfskannanir.

Sextíu manns tóku þátt í þinginu og er þeim þakkað kærlega fyrir sitt framlag. Niðurstöður þingsins verða kynntar bæjarráði og í nefndum bæjarins og verða niðurstöður þess hafðar til hliðsjónar við mótun stefnu í málefnum eldri borgara.

Skýrsla með niðurstöðum málþingsins 

Myndir frá þinginu eru á facebook síðu Garðabæjar