Fræðsluganga á sunnudaginn
Dagur íslenskrar náttúru verður haldinn hátíðlegur sunnudaginn 16. september nk. Þetta er í annað sinn sem haldið er upp á daginn en hann ber upp á afmælisdag Ómars Ragnarssonar fréttamanns sem er þekktur fyrir starf sitt við að vekja athygli á nauðsyn þess að vernda náttúru Íslands. Í Garðabæ verður boðið upp á áhugaverða fræðslugöngu í tilefni dagsins.
Mæting við Vífilsstaði kl. 13
Sunnudaginn 16. september verður farið í fræðslugöngu með Ragnheiði Traustadóttur fornleifafræðingi á vegum umhverfisnefndar Garðabæjar. Gangan hefst á Vífilsstöðum þar sem mæting er kl. 13 á sunnudaginn og er áætlað að róleg gangan taki um tvo tíma með stoppum á áhugaverðum stöðum. Gengið verður frá Vífilsstöðum til suðurs að Jónshellum og þaðan yfir Reykjanesbrautina að göngustíg sem liggur að Atvinnubótaveginum forna í Garðahrauni (Búrfellshrauni). Þaðan verður gengið að Hraunsholtslæk og læknum fylgt austur aftur á Vífilsstaði. Á myndinni sem fylgir fréttinni má sjá nýtt fræðsluskilti við Atvinnubótaveginn og í baksýn má sjá Vífilsstaði uppi í vinstra horni myndarinnar. Allir eru velkomnir í gönguna, nánari leiðarlýsingu er að finna hér.
Á heimasíðu Umhverfisráðuneytisins er einnig hægt að sjá áhugaverða dagskrá annars staðar á landinu þennan dag.