21. okt. 2016

Blær bangsi kom með þyrlu til Garðabæjar

Áhöfn á þyrlu Landhelgisgæslunnar kom færandi hendi á Vífilsstaðatún í morgun með Blæ bangsa, táknmynd Vináttu, forvarnaverkefnis gegn einelti
  • Séð yfir Garðabæ
Áhöfn á þyrlu Landhelgisgæslunnar kom færandi hendi á Vífilsstaðatún í morgun með Blæ bangsa. Börn úr þremur leikskólum í Garðabæ biðu spennt og tóku fagnandi á móti Blæ sem kom á þennan tikomumikla hátt í Garðabæinn. Blær kemur frá Ástralíu og er táknmynd Vináttu, forvarnarverkefnis Barnaheilla gegn einelti. Með honum í för var fjöldi hjálparbangsa og fær hvert barn á leikskólunum einn slíkan bangsa. Blær og hjálparbangsarnir ætla að hjálpa börnunum að vera vinir, en þessir leikskólar eru að hefja vinnu með verkefnið Vináttu og hafa þátt allir leikskólar bæjarins tekið það upp.

„Við fögnum þessum áfanga og þeim frábæru viðtökum sem Vinátta fær alls staðar þar sem verkefnið er tekið til notkunar. Árangur af Vináttu er góður hér á landi sem annars staðar, bæði börn, foreldrar og starfsfólk segja okkur að Vinátta sé einmitt það sem hafi vantað í leikskólann þeirra,“ segir Margrét Júlía Rafnsdóttir, verkefnastjóri Vináttu hjá Barnaheillum – Save the Children á Íslandi.

Gunnar Einarsson bæjarstjóri var viðstaddur komu Blæs til Garðabæjar og segist sérstakelga ánægður með að allir leikskólar bæjarins séu að vinna með verkefnið Vináttu. „Það er afar mikilvægt að koma í veg fyrir að einelti nái að festa rætur, en það getur gerst strax í leikskóla. Það er því til mikils að vinna,“ segir Gunnar Einarsson, bæjarstjóri í Garðabæ.

Vináttuverkefnið er danskt að uppruna og byggir á nýjustu rannsóknum á einelti. Á Íslandi var verkefninu formlega ýtt úr vör í byrjun ársins og nú hafa um 20% leikskóla landsins tekið það til notkunar. Í Vináttu er litið svo á að einelti sé ekki einstaklingsbundið vandamál, heldur félagslegt, menningarlegt og samskiptalegt mein sem þróast þar sem umburðarlyndi skortir gagnvart margbreytileikanum og þar sem mjög ósveigjanleg viðmið eru um hvað sé „rétt“ eða „rangt“. Lögð er áhersla á styrkleika hvers einstaklings, menninguna í hópnum, samkennd og margbreytileika. Verkefnið vinnur að góðum skólabrag með gildunum umburðarlyndi, virðingu, umhyggju og hugrekki.

„Þess vegna skiptir miklu máli að byrja forvarnir strax í leikskóla en markmið okkar hjá Barnaheillum er að verkefnið komist í sem flesta leikskóla á Íslandi og stuðli þannig að eineltislausu samfélagi,“ segir Margrét Júlía.

Nánari upplýsingar um Vináttu er að finna á heimasíðu Barnaheilla: barnaheill.is/vinatta.