13. júl. 2012

Frjómælingar í Urriðaholti

Frjótími grasa er trúlega kominn vel í gang á láglendi um allt land. Á höfuðborgarsvæðinu og á Akureyri eru frjótölur háar á þurrviðrisdögum. Mælitæki Náttúrufræðistofnunar Íslands eru m.a. staðsett í Urriðaholti í Garðabæ við hús stofnunarinnar þar og þessa dagana fjölgar grasfrjóum sem mælast þar.
  • Séð yfir Garðabæ

Frjótími grasa er trúlega kominn vel í gang á láglendi um allt land. Á höfuðborgarsvæðinu og á Akureyri eru frjótölur háar á þurrviðrisdögum.   Mælitæki Náttúrufræðistofnunar Íslands eru m.a.  staðsett í Urriðaholti í Garðabæ við hús stofnunarinnar þar og þessa dagana fjölgar grasfrjóum sem mælast þar.  Frjómælingar fara fram á tímabilinu 15. apríl til 30. september á vegum Náttúrufræðistofnunar Íslands í samstarfi við Veðurstofu Íslands.

 

Á vef Náttúrufræðistofnunar birtast frjótölur grasa í Urriðaholti daglega alla virka daga. Þar birtast einnig myndrit sem sýnir frjótölur sem súlur ofan á bláum bakgrunni sem endurspeglar meðalástand fyrir alla mælistaðina þrjá: Reykjavík, Akureyri og Garðabæ. Þar má einnig finna margvíslegan fróðleik um frjómælingar o.fl.

 

Mælingar á frjókornum í andrúmsloftinu í Reykjavík frá árinu 1988 sýna að lyng- og víðifrjó koma fyrst á vorin, asparfrjó birtast fyrir miðjan maí. Af þeim tegundum sem þekktar eru sem skæðir ofnæmisvaldar dreifast birkifrjó fyrst, oftast í síðustu viku maí. Frjókorna túnsúru og hundasúru (súrufrjóa) verður jafnan vart í fyrri hluta júní og grasfrjó birtast um svipað leyti eða skömmu síðar. Grasfrjó eru stöðugt í loftinu frá lokum júní og fram í september. Mesta magnið er jafnan í síðustu viku júlí og fyrri hluta ágúst en þá er vallarfoxgras og língresi í blóma (fróðleikur af vef Náttúrufræðistofnunar).