21. jún. 2012

Kosningar um sameiningu

Kosningar um sameiningu Garðabæjar og Álftaness fara fram 20. október 2012. Á bæjarstjórnarfundum í Garðabæ og Álftanesi í dag, fimmtudag 21. júní, var síðari umræða um álit samstarfsnefndar um sameiningu sveitarfélaganna.
  • Séð yfir Garðabæ

Kosningar um sameiningu Garðabæjar og Álftaness fara fram 20. október 2012.


Á bæjarstjórnarfundum í Garðabæ og  Álftanesi í dag, fimmtudag 21. júní,  var síðari umræða um álit samstarfsnefndar um sameiningu sveitarfélaganna. 

 

Eftirfarandi bókun um kjördag o.fl. vegna atkvæðagreiðslu um sameiningu var samþykkt á fundi í bæjarstjórnum sveitarfélaganna.

„Með vísan til 2. mgr. 119. gr. sveitarstjórnarlaga hafa farið fram tvær umræður í bæjarstjórn án atkvæðagreiðslu um álit samstarfsnefndar um sameiningu  Garðabæjar og Sveitarfélagsins Álftaness.


Samkvæmt 3. mgr. sömu greinar skal fara fram atkvæðagreiðsla um tillögu að sameiningu meðal íbúa sveitarfélaganna laugardaginn 20. október 2012 samhliða þjóðaratkvæðagreiðslu um tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnskipunarlaga.


Bæjarstjórn Garðabæjar/Bæjarstjórn Álftaness er sammála um að á grundvelli niðurstöðu í greinargerð um sameiningu sveitarfélaganna sé það menningarlega, skipulagslega og rekstrarlega hagkvæmur kostur, að sveitarfélögin verði sameinuð.


Bæjarstjórn samþykkir að samstarfsnefnd um sameiningu starfi áfram og annist kynningu meðal íbúa á tillögu um sameiningu sveitarfélaganna og helstu forsendum hennar.  Kynning á tillögunni skal fara fram með minnst tveggja mánaða fyrirvara fyrir atkvæðagreiðslu samkvæmt 4. mgr. 119. gr. sveitarstjórnarlaga.


Tillaga um sameiningu sveitarfélaganna skal auglýst opinberlega í Lögbirtingablaði og í fjölmiðlum.“