20. jún. 2012

Framhald á atvinnuátaki

Föstudaginn 15. júní sl. undirrituðu Gunnar Einarsson, bæjarstjóri, Magnús Gunnarsson formaður Skógræktarfélags Íslands og Barbara Stanzeit, gjaldkeri Skógræktarfélags Garðabæjar, samning um atvinnuátak sem mun skapa 100 ungmennum í Garðabæ vinnu í tvo mánuði.
  • Séð yfir Garðabæ

Föstudaginn 15. júní sl. undirrituðu Gunnar Einarsson, bæjarstjóri, Magnús Gunnarsson formaður Skógræktarfélags Íslands og Barbara Stanzeit, gjaldkeri Skógræktarfélags Garðabæjar, samning um atvinnuátak sem mun skapa 100 ungmennum í Garðabæ vinnu í tvo mánuði.  Samningurinn var undirritaður á útivistarsvæðinu Smalaholti norðan megin við Vífilsstaðavatn þar sem fjöldi ungmenna er að störfum í sumar við stígagerð, skógrækt, umhirðu o.fl.  


Samningurinn er framhald af sameiginlegu verkefni sem Skógræktarfélag Íslands í samvinnu við Innanríkisráðuneytið (áður Samgönguráðuneytið) hóf árið 2009. Verkefnið var hugsað sem þriggja ára verkefni en þar sem enn voru til fjármunir af upphaflegri fjárveitingu var ákveðið að halda því áfram sumarið 2012.


Samningurinn felur í sér vinnu við margvíslega umhirðu og ræktunarverkefni í tvo mánuði á þessu sumri á svæðum Skógræktarfélags Garðabæjar, m.a. í Smalaholti, Sandhlíð og Vífilsstaðahlíð.   Ungmenni sem taka þátt í skógræktarátakinu fá vinnu í 7-8 vikur í sumar. Þau sem eru 17 ára (fædd 1995) vinna í 6 tíma á dag en 18 ára og eldri vinna í 7 tíma á dag.
Sjá einnig frétt frá 18. maí á heimasíðunni um sumarvinnu ungmenna.