15. jún. 2012

Kvöldganga um Gálgahraun

Fimmtudagskvöldið 14. júní sl. efndi Listasafn Reykjavíkur til kvöldgöngu í Gálgahrauni í Garðabæ undir leiðsögn Jónatans Garðarssonar, fjölmiðla- og fræðimanns. Þátttakendur í göngunni voru um 170 og var gengið frá gönguleiðaskiltinu við Hraunsvik, vestan Sjálandshverfis, eftir Fógetagötu og frá henni til norðurs til Vatnagarða við Lambhúsatjörn. Á leiðinni var stansað nokkrum sinnum og greindi Jónatan frá helstu kennileitum og merkum örnefnum í Gálgahrauni.
  • Séð yfir Garðabæ

Fimmtudagskvöldið  14. júní sl. efndi Listasafn Reykjavíkur til kvöldgöngu í Gálgahrauni í Garðabæ undir leiðsögn Jónatans Garðarssonar, fjölmiðla- og fræðimanns. Tilefni göngunnar var sýning sem opnuð var á Kjarvalsstöðum í byrjun júní og nefnist Gálgaklettur og órar sjónskynsins. Sýningin á Kjarvalsstöðum byggir að mestu á nokkrum tugum málverka sem Jóhannes S. Kjarval málaði í Garðahrauni en þangað sótti hann í mörg ár og málaði oftar en ekki sömu klettana við mismunandi skilyrði.

 

Góð þátttaka í göngunni

Þátttakendur í göngunni voru um 170 og var gengið frá gönguleiðaskiltinu við Hraunsvik, vestan Sjálandshverfis, eftir Fógetagötu og frá henni til norðurs til Vatnagarða við Lambhúsatjörn. Á leiðinni var stansað nokkrum sinnum og greindi Jónatan frá helstu kennileitum og merkum örnefnum í Gálgahrauni. Þá var gengið að Gálgaklettum (Austurgálga, Miðgálga og Vesturgálga) þar sem menn nutu náttúrufegurðar í kvölsólinni og hlustuðu á frásögn Jónatans um þennan forna aftökustað.Síðan lá leiðin til suðurs yfir Fógetagötu og áfram á milli Kletta og Garðastekks og að Kjarvalsreitnum. Á leiðinni sýndi Jónatan göngumönnum hvar fyrirhugaður Álftanesvegur mun liggja í gegnum hraunið.

Á Kjarvalsreitnum sagði Jónatan frá  þeim fjölmörgu mótífum sem Kjarval notaði í málverkum sínum. Hann greindi einnig frá starfi Hraunavina og baráttu þeirra fyrir umhverfisverndun. Fram kom að Kjarvalsreiturinn er ekki friðaður en  Jónatan gat þess sérstaklega að bæjaryfirvöld í Garðabæ hafi jafnan hlustað á rök Hraunavina og reynt að taka tillit til umhverfissjónarmiða þeirra. Á staðnum fjallaði Halldór Ásgeirsson um fyrirbærafræði sjónskynsins í myndlist og ýmis tilbrigði Kjarvals í mörgum myndum af sama mótífi, s.s. sama hraunklettinum.


 

Falleg náttúruperla

Jóhannes Kjarval (1885-1972) heimsótti þennan stað í um aldarfjórðung og kenndi hann við Gálgaklett. Þó er líklegt að Kjarval hafi aldrei komið að hinum einu og sönnu Gálgaklettum. Kjarval tók leigubíl og lét hann stansa  við Álftanesveg og gekk þaðan á þennan stað sem nú er jafnan nefndur Kjarvalsreitur. Göngunni lauk um kl. 22.00 og voru menn afar ánægðir með frábæra leiðsögn Jónatans, fróðlegan fyrirlestur Halldórs og góða veðrið í þessari fallegu náttúruperlu Garðabæjar – Gálgahrauni.