7. jún. 2012

Saga til næsta bæjar

Ný sýning sem nefnist Saga til næsta bæjar verður opnuð í Hönnunarsafni Íslands í Garðabæ fimmtudaginn 7. júní kl. 17. Á sýningunni er leitast við að veita innsýn í vöruhönnun og mótun landslags hennar síðustu ár.
  • Séð yfir Garðabæ

Ný sýning sem nefnist Saga til næsta bæjar verður opnuð í Hönnunarsafni Íslands í Garðabæ fimmtudaginn 7. júní kl. 17. Á sýningunni er leitast við að veita innsýn í vöruhönnun og mótun landslags hennar síðustu ár. Sjónum er sérstaklega beint að samstarfsverkefnum vöruhönnuða. Verkefni þeirra eru oftar en ekki þverfagleg. Þau eru margbreytileg og mikilvæg í mótun landslags vöruhönnunar á Íslandi og um leið fyrir íslenskt samfélag. Inn í þetta samhengi fléttast sögur þeirra hönnuða sem hafa látið að sér kveða fyrr og nú auk þeirra nýju radda yngri kynslóðarinnar sem hafa sprottið fram.

 

Á sýningunni  eru um  50 verk eftir fjölda íslenskra vöruhönnuða. Að auki eru sagt frá stórum samstarfsverkefnum sem nú standa yfir og eru mikilvæg til eflingar á nýsköpun, endurhugsun á notkun staðbundins hráefnis og leiðum til að endurvekja aðferðir og þróa áfram og efla samfélagið. Sýningarstjóri er Hlín Helga Guðlaugsdóttir.

 

Sýningin stendur fram í október og fræðsludagskrá með leiðsögnum og samtali hönnuða um verk þeirra verður auglýst sérstaklega. Nánari upplýsingar um sýninguna eru á heimasíðu safnsins, www.honnunarsafn.is