25. maí 2012

Bæjarlistamaður Garðabæjar 2012

Þórunn Erna Clausen leikkona er bæjarlistamaður Garðabæjar árið 2012. Gunnar Einarsson bæjarstjóri Garðabæjar tilkynnti um hver væri bæjarlistamaður Garðabæjar árið 2012 á Menningaruppskeruhátíð Garðabæjar sem var haldin í samkomuhúsinu að Garðaholti fimmtudaginn 24. maí sl.
  • Séð yfir Garðabæ

Þórunn Erna Clausen leikkona er bæjarlistamaður Garðabæjar árið 2012. Gunnar Einarsson bæjarstjóri Garðabæjar tilkynnti um hver væri bæjarlistamaður Garðabæjar árið 2012 á Menningaruppskeruhátíð Garðabæjar sem var haldin í samkomuhúsinu að Garðaholti fimmtudaginn 24. maí sl.  Allt frá árinu 1992 hefur Garðabær veitt styrk til listamanns eða listamanna. Sá aðili sem fyrir valinu verður hefur fengið þann heiður að vera nefndur bæjarlistamaður Garðabæjar.

Viðurkenningar afhentar

Á þessari fyrstu menningaruppskeruhátíð voru jafnframt veittar viðurkenningar til ungra og efnilegra listamanna í Garðabæ sem fengu úthlutaða styrki úr Hvatningarsjóði ungra listamanna til að vinna að ýmsum menningarverkefnum í Garðabæ.  Einnig var Sigurður Björnsson óperusöngvari heiðraður fyrir starf sitt að eflingu menningarmála í Garðabæ á undanförnum árum og við þetta tækifæri voru  undirritaðir samstarfssamningar við félagið Grósku og Klifið - fræðslusetur.  Boðið var upp á tónlistaratriði með Ómari Guðjónssyni bæjarlistamanni síðasta árs  og myndlistarmenn í Grósku settu upp skemmtilega ,,örmyndlistasýningu“ í hlöðunni við bæinn Krók á Garðaholti.

Um bæjarlistamanninn

Þórunn Erna Clausen er fædd árið  1975 og hefur verið búsett í Garðabæ alla ævi ef frá eru talin námsár í Lundúnum og París.  Hún lærði leiklist við The Webber Douglas Academy í London og útskrifaðist þaðan árið 2001.  Þórunn hefur komið víða við síðan hún útskrifaðist og leikið og sungið á sviði, útvarpsleikshúsi og í sjónvarps- og bíómyndum.  Hún hefur m.a.  tvívegis hlotið tilnefningar til Edduverðlaunanna fyrir leik sinn í sjónvarpsþáttunum Reykjavíkurnóttum árið 2005 og árið 2006 fékk hún tilnefningu fyrir hlutverk Möggu í kvikmyndinni Dís og til Grímuverðlaunanna fyrir leik sinn í Dýrlingagenginu.

 

Í Þjóðleikhúsinu lék Þórunn m.a. Ragnheiði Birnu í Þetta er allt að koma, í Syngjandi í rigningunni, Sitji Guðs Englar, Gott kvöld, Konan áður og Leitin að jólunum.  Hún lék Nansí í Ólíver hjá LA og einleikinn um Guðríði Þorbjarnardóttur Ferðasögu Guðríðar víða um land og erlendis.  Í Borgarleikhúsinu hefur hún leikið í Söngvaseið og Fjölskyldunni en hún var einnig aðstoðarleikstjóri í þeirri sýningu.  Á síðastliðnu ári hefur hún m.a. leikið með leikfélaginu Vesturporti í uppsetningu þeirra og Borgarleikhússins á Faust  bæði í Rússlandi og Suður Kóreu. Hún var aðstoðarleikstjóri í Galdrakarlinum í Oz í Borgarleikhúsinu og í söngleiknum Gulleyjunni sem var sýndur við miklar vinsældir á Akureyri í vetur og verður sýndur í Borgarleikhúsinu í haust.  Á síðastliðnu ári samdi hún einnig textann við  lag Sigurjóns Brink Aftur heim/Coming home  og leikstýrði og framleiddi íslenska atriðið á sviðinu í Eurovisionkeppninni í  Düsseldorf 2011.  Hún átti einnig texta við þrjú lög Sveins Rúnars Sigurðssonar í lokakeppni Eurovision á Íslandi janúar 2012: Hugarró með Magna,  Stund með þér með Rósu Birgittu Ísfeld og við lagið Leyndarmál með Írisi Hólm. Þess má geta að Hugarró hefur verið eitt vinsælasta lag á Íslandi það sem af er þessu ári.

 

Þórunn hefur einnig unnið mikið með ungu fólki og komið að uppsetningu söngleikja við félagsmiðstöðina Garðalund í Garðabæ  þar sem hún hefur leikstýrt og séð um leikgerð á sýningum Garðalundar við góðan orðstír.   Má þar nefna söngleikina Dirty Dancing, Mamma Mia, Fiðlarinn á þakinu, Draumur á Jónsmessunótt,  Hárið og Grease.  Einnig hefur hún komið að leikstjórn á sviði leikhúsanna og var m.a. aðstoðarleikstjóri Fjölskyldunnar sem var sýnt í Borgarleikhúsinu  2009 -2011 og aðstoðarleikstjóri í Galdrakarlinum í Oz í Borgarleikhúsinu í vetur.


Viðurkenningar afhentar fyrir unga listamenn sem fengu styrk úr Hvatningarsjóði ungra listamanna.  Á myndinni eru listamennirnir, aðstandendur og fulltrúar menningar- og safnanefndar Garðabæjar.


Sigurður Björnsson óperusöngvari fékk afhentan þakklætisvott fyrir starf sitt að eflingu menningarlífs í Garðabæ.


 
Ómar Guðjónsson og Matthías Hemstock.


Áslaug Hulda Jónsdóttir forseti bæjarstjórnar Garðabæjar, Þórunn Erna Clausen bæjarlistamaður Garðabæjar 2012 og Gunnar Einarsson bæjarstjóri.


Skrifað undir samstarfssamning við fræðslusetrið Klifið í Garðabæ.


Skrifað undir samstarfssamning við félagið Grósku í Garðabæ.


,,Örmyndlistarsýning" í hlöðunni í Króki á Garðaholti