Kynning á miðbæjartillögu
Skipulagsnefnd boðaði til íbúafundar í Flataskóla í gær, fimmtudaginn 24.maí, þar sem tillaga að breytingu á deiliskipulagi miðbæjar Garðabæjar var kynnt en tillagan er nú í forkynningu.
Á fundinum fór Freyr Frostason, arkitekt yfir tillöguna í máli og myndum. Hann lagði áherslu á að tillagan er að nýju deiliskipulagi en nánari útfærsla og hönnun á einstaka byggingum og svæðum er eftir.
Nokkrar fyrirspurnir og ábendingar komu fram á fundinum sem sneru t.d. að grænum svæðum og hæð bygginga.
Forkynning til 6. júní
Tillagan er í forkynningu til 6. júní nk. Á þeim tíma gefst íbúum og öðrum hagsmunaaðilum kostur á að koma með ábendingar við tillöguna. Ábendingum má koma á framfæri við skipulagsstjóra á netfangið arinbjorn@gardabaer.is.
Ábendingar sem berast í forkynningarferlinu verða hafðar til hliðsjónar við endanlega útfærslu tillögunnar en þær teljast ekki formlegar athugasemdir við deiliskipulagstillöguna.
Að forkynningu lokinni verður tillaga að deiliskipulagi auglýst og þá er hægt að gera formlegar athugasemdir við hana.
Gögn tillögunnar
Kynning skipulagsráðgjafans Freys Frostasonar hjá THG arkitektum frá íbúafundinum 24. maí
Auglýsing forkynningar með uppdráttum
Lýsing deiliskipulagsverkefnisins
Gögnin er einnig hægt að skoða þjónustuveri Garðabæjar í Ráðhúsinu, Garðatorgi 7.