Kosið um sameiningu í haust
Tillaga um sameiningu Garðabæjar og Sveitarfélagsins Álftaness verður í haust lögð fyrir íbúa sveitarfélaganna tveggja í atkvæðagreiðslu.
Samstarfsnefnd um sameiningu sveitarfélaganna samþykkti samhljóða á fundi sínum fyrr í dag bókun þar sem fram kemur það álit nefndarinnar að fram eigi að fara atkvæðagreiðsla meðal íbúa sveitarfélaganna um sameiningu. Álit nefndarinnar ásamt greinargerð verður send bæjarstjórnum sveitarfélaganna tveggja sem er þar með skylt að hafa um það tvær umræður í bæjarstjórn án atkvæðagreiðslu, skv. 2. mgr. 119. gr. sveitarstjórnarlaga.
Að lokinni umræðu sveitarstjórna ber síðan að halda atkvæðagreiðslu meðal íbúa sveitarfélaganna um sameininguna, sbr. 3. mgr. sömu greinar.
Bæjarstjórnirnar þurfa sameiginlega að ákveða hvenær atkvæðagreiðsla um sameiningu sveitarfélaganna fer fram. Kjósa skal sama dag í báðum sveitarfélögunum. Fram kemur í sveitarstjórnarlögum að kynna verði íbúum sveitarfélaganna tillöguna ásamt forsendum hennar með a.m.k. tveggja mánaða fyrirvara og er því gert ráð fyrir að til atkvæðagreiðslu komi í haust.
Samstarfsnefndin um sameiningu sveitarfélaganna var sett á laggirnar á árinu 2010 eftir að bæjarstjórn Garðabæjar barst erindi frá sveitarstjórn Sveitarfélagsins Álftaness þar sem farið var fram á viðræður um sameiningu á grundvelli frjálsrar sameiningar. Nefndin hefur haldið 16 fundi, þar af tvo með innanríkisráðherra og nokkra með fulltrúum í fjárhaldsstjórn Sveitarfélagsins Álftaness.
Ráðgjafi nefndarinnar er Garðar Jónsson, stjórnunar- og rekstrarráðgjafi hjá R3-Ráðgjöf. Garðar er fyrrverandi bæjarstjóri Hafnar í Hornafirði og hefur einnig starfað að sveitarstjórnarmálum á vettvangi ráðuneyta.