10. maí 2012

Fróðlegar sögugöngur

Góður hópur fólks tók þátt í sögugöngum í Garðabæ með rithöfundunum Kristínu Helgu Gunnarsdóttur og Einari Má Guðmundssyni.
  • Séð yfir Garðabæ

Góður hópur fólks tók þátt í sögugöngum í Garðabæ með rithöfundunum Kristínu Helgu Gunnarsdóttur og Einari Má Guðmundssyni.  Fyrri sögugangan var farin laugardaginn 5. maí sl. þar sem gengið var frá Bókasafni Garðabæjar um Silfturtúnið undir leiðsögn Kristínar Helgu Gunnarsdóttur.  Þar sagði hún frá sögusviði bókanna um Binnu og Móa hrekkjusvín og einnig fylgdu skemmtilegar sögur með frá uppvaxtarárum rithöfundarins í Silfurtúninu.  Að lokum var haldið upp á Bókasafn Garðabæjar þar sem göngugestir fengu innsýn inn í bakgrunn bókanna um Fíusól. 


Í sögugöngu með Kristínu Helgu Gunnarsdóttur rithöfundi.

 

Þriðjudaginn 8. maí sl. var farið í seinni sögugönguna þar sem gengið var frá Bókasafni Garðabæjar að Vífilsstöðum þar sem Einar Már Guðmundsson rithöfundur tók á móti hópnum. Þar las Einar upp úr nokkrum bókum sínum og fjallaði sérstaklega um tilurð og sögusvið bókar sinnar Draumar á Jörðu sem gerist að miklu leyti á Vífilsstöðum. Sögugöngurnar voru á vegum Bókasafns Garðabæjar í samstarfi við menningar- og safnanefnd Garðabæjar. 


Einar Már Guðmundsson les upp úr bók sinni við Vífilsstaði.