27. jan. 2012

Börn tala um réttindi barna

Nemendur í fyrsta og öðrum bekk í Hofsstaðaskóla vita ýmislegt um Barnasáttmála sameinuðu þjóðanna og réttindi barna eins og fram kom í skemmtilegu innslagi í Íslandi í dag á Stöð 2 í gær.
  • Séð yfir Garðabæ

Nemendur í fyrsta og öðrum bekk í Hofsstaðaskóla vita ýmislegt um Barnasáttmála sameinuðu þjóðanna og réttindi barna eins og fram kom í skemmtilegu innslagi í Íslandi í dag á Stöð 2 í gær. 

Umfjöllunin var gerð í tilefni Heillakeðju Barnaheilla sem var hrint af stað í gær. Heillakeðjan er átak til að vekja athygli á stöðu og réttindum barna og til að safna fé til verkefna í þágu barna.

Öll börn skulu njóta réttinda

Börnin voru beðin um að velta fyrir sér réttindum barna og sáttmálanum út frá annarri grein hans, en hún hljóðar svo:

2. grein
Jafnræði - bann við mismunun
Öll börn skulu njóta réttinda Barnasáttmálans án tillits til kynþáttar, litarháttar, kynferðis, tungu, trúar, stjórnmálaskoðana, ætternis, fötlunar, félagslegrar stöðu eða annarra aðstæðna þeirra eða stöðu eða athafna foreldra þeirra.

Helga börnum einn mánuð ársins


Tólf íslensk fyrirtæki hafa ákveðið að taka þátt í heillakeðjunni með því að helga börnum og réttindum þeirra einn mánuð. Þá munu fyrirtækin ásamt viðskiptavinum safna fé til styrktar starfsemi Barnaheilla – Save the Children á Íslandi, mannréttindasamtaka barna.


Hægt er að fylgjast með heillakeðjunni á facebook síðu verkefnisins.


Börnin sem koma fram í innslaginu eru öll í fyrsta og öðrum bekk í Hofsstaðaskóla. Þau heita: Stefán Haukur, Margrét Anna, Bergdís, Eva, Kári, Hrafndís Freyja, Karitas, Ásdís, Anna Lovísa, Sonja Lind, Ásgeir og Þorvaldur.