26. jan. 2012

Unnið að snjómokstri fram á kvöld

Starfsmenn þjónustumiðstöðvar Garðabæjar og verktakar hafa unnið að því að ryðja götur bæjarins frá því kl. 4 i nótt með öllum tiltækum snjóruðningstækjum.
  • Séð yfir Garðabæ

Starfsmenn þjónustumiðstöðvar Garðabæjar og verktakar hafa unnið að því að ryðja götur bæjarins frá því kl. 4 i nótt með öllum tiltækum snjóruðningstækjum. Mikil snjóþyngsli eru nú í Garðabæ sem annars staðar á höfuðborgarsvæðinu og hafa þau valdið mörgum óþægindum og töfum.

Verður unnið fram á kvöld 

Byrjað er á að ryðja aðalleiðir og að því loknu er farið inn í aðrar götur. Sigurður Hafliðason, forstöðumaður þjónustumiðstöðvar segir að í dag hafi verið reynt að opna inn í allar götur bæjarins og að sú vinna sé langt komin. Víða séu þó komnir háir ruðningar sem hamli umferð um götur. Menn munu halda áfram störfum fram á kvöld og byrja aftur snemma í fyrramálið. Nú sé reynt að vinna á þessum háu ruðningum og víkka færan hluta gatna eins og hægt er.

Sigurður hvetur íbúa til að moka frá ruslatunnum til að auðvelda sorphirðu þar sem því verður við komið.

Foreldrar fylgist með veðri og veðurspám

Allir skólar bæjarins eru opnir þótt veðrið sé slæmt en forráðamenn eru hvattir til að fylgjast sjálfir með veðri og veður­spám og haga sér í samræmi við aðstæður hverju sinni. Foreldrar leggja sjálfir mat á hvort fylgja þarf barni í skóla þótt engin tilkynning hafi borist frá yfirvöldum. Verklagsreglur um röskun á skólastarfi vegna óveðurs eru á vef Garðabæjar og á vefjum skólanna.