13. jan. 2012

Nýr leikskóli opnaður

Nýr leikskóli í Garðabæ, leikskólinn Akrar, var formlega tekinn í notkun fimmtudaginn 12. janúar 2012. Leikskólinn Akrar er eini leikskólinn sem hefur verið í byggingu á öllu höfuðborgarsvæðinu undanfarið ár.
  • Séð yfir Garðabæ

Nýr leikskóli í Garðabæ, leikskólinn Akrar, var formlega tekinn í notkun fimmtudaginn 12. janúar 2012. Leikskólinn Akrar er eini leikskólinn sem hefur verið í byggingu á öllu höfuðborgarsvæðinu undanfarið ár.  Leikskólinn er að Línakri 2 í Akrahverfinu. Íbúum Garðabæjar hefur fjölgað jafnt og þétt á síðustu árum og með nýja leikskólanum verður áfram hægt að bjóða öllum börnum sem verða 18 mánaða ár hvert leikskóladvöl.

Byggingartími rúmt ár 

Fyrsta skóflustungan að húsinu var tekin fyrir rúmu ári . Heildarkostnaður við hús og lóð er áætlaður 300.000.000 kr  og hefur framkvæmdin verið fjármögnuð af Garðabæ án lántöku.  Húsið er á einni hæð og er grunnflötur þess  814 fermetrar.  Stærð lóðar er 4.827 fermetrar.  Í leikskólanum Ökrum eru 4 deildir og munu um 100 börn dvelja í leikskólanum.  Leikskólastjóri er Sigrún Sigurðardóttir. 


 

 Lautir og fjölbreytt leiksvæði

Hönnun húsnæðisins var í höndum arkitektanna Kristínar B. Gunnarsdóttur og Steffans Iwersen á Arkitektastofunni Einrúm og Einars Ólafssonar hjá Arkiteo en um lóðarhönnun sá Emil G. Guðmundsson hjá Suðaustanátta.  Aðalverktaki byggingarinnar var Baldur Jónsson ehf. Að hönnun leikskólans kom hópur starfandi leikskólakennara sem kom hugmyndafræði leikskólastarfs á framfæri við hönnuði ásamt hagnýtum atriðum í daglegu starfi. Skólinn skiptist í tvær einingar aðra fyrir yngri börnin og hina fyrir eldri börn.  Lautir og  fjölmörg minni leiksvæði einkenna hvora einingu fyrir sig.  Stjörnuhiminn blasir við yngri börnunum í einni lautinni þegar þau leggja sig eftir hádegismatinn og eldri börnin fá tækifæri til að örva skynfærin í skynörvunarlautinni. Þar má sjá hreyfimyndir á veggjum, vatnssúlu í mörgum litum og ljósaþræði sem börnin geta leikið með. Vísinda- og listasvæði eru í báðum endum hússins og hreyfisvæði í miðju húsinu ásamt eldhúsi og starfsmannaaðstöðu.   Útisvæðið er fjölbreytt með afmörkuðu svæði fyrir yngstu börnin.  Á lóðinni gefst möguleiki fyrir börnin að hjóla, renna og róla ásamt því að sulla í vatni og mold.  Einnig er trépallur umhverfis húsið sem nýtist í margvíslegan leik.  

Virkni og vellíðan

Grunngildi leikskólans Akra eru virkni og vellíðan.  Vellíðan barna verður höfð í fyrirrúmi og starfið skipulagt út frá þátttöku og virkni barnanna í öllu starfinu.  Sköpun, læsi, útikennsla og tenging við samfélagið kemur til með að skipa stóran sess.  Lögð verður áhersla á teymisvinnu meðal barna, starfsmanna og foreldra. Fyrstu börnin komu í leikskólann mánudaginn 9. janúar sl. og hafa þau verið með foreldrum sínum í svokallaðri þátttökuaðlögun nú í vikunni, þar sem bæði foreldrar og börn kynnast vel starfsemi leikskólans. Upplýsingar um leikskólann Akra eru á vef skólans, www.akrar.is.  Fréttamenn Stöðvar 2 komu í heimsókn þegar leikskólinn var opnaður og hér má sjá myndir úr fréttatímanum.


Börn úr leikskólanum Hæðarbóli komu í heimsókn við opnunina og sungu nokkur vel valin lög. Það þótti vel við hæfi að fá þau við opnunina þar sem það voru einnig börn frá Hæðarbóli sem tóku fyrstu skóflustunguna þegar byggingarframkvæmdir hófust þann 1. desember 2010.


Gunnar Einarsson bæjarstjóri flutti ræðu við opnunina og þakkaði þeim fjölmörgu sem hafa komið að verkinu, arkitektum, hönnuðum, verktökum og starfsmönnum Garðabæjar.


Kór Sjálandsskóla kom einnig í heimsókn og flutti m.a. lag úr áramótaskaupinu.


Boðið var upp á gómsætar flatkökur með hangikjöti og börnin á leikskólanum kunnu vel að meta veitingarnar á meðan gestir gengu um og skoðuðu bygginguna.