9. jan. 2012

Íþróttamenn ársins 2011

Knattspyrnufólkið Gunnhildur Yrsa Jónsdóttir og Garðar Jóhannsson eru íþróttamenn Garðabæjar 2011
  • Séð yfir Garðabæ

Knattspyrnufólkið Gunnhildur Yrsa Jónsdóttir og Garðar Jóhannsson eru íþróttamenn Garðabæjar 2011. Kjöri þeirra var lýst við hátíðlega athöfn sunnudaginn 8. janúar.

Gunnhildur Yrsa er fyrirliði meistaraflokks kvenna í knattspyrnu í Stjörnunni. Undir hennar liðsstjórn náði meistaraflokkur kvenna þeim árangri á árinu að vinna fyrsta Íslandsmeistaratitil félagsins í knattspyrnu í meistaraflokki auk þess að vinna Lengjubikar kvenna.

Garðar spilar knattspyrnu með úrvalsdeildarliði Stjörnunnar. Á nýafstaðinni leiktíð spilaði Garðar 21 leik af 22 í Pepsídeildinni og skoraði 15 mörk. Fyrir þessa frammistöðu hlaut hann Gullskóinn eftirsótta en þann heiður hlýtur sá leikmaður sem skorar flest mörk í Íslandsmóti.

Miklir yfirburðir kvennaliðs Stjörnunnar

Árangur meistaraflokks kvenna í knattspyrnu var frábær á árinu. Undir liðsstjórn Gunnhildar Yrsu vann liðið alla leiki sína nema einn í PEPSI-deild kvenna, vann flesta heimaleiki og flesta útileiki, skoraði flest mörk og fékk á sig fæst. Auk þess að vinna Íslandsmeistaratitilinn jafnaði liðið stigamet efstu deildar kvenna og vann 15 leiki í röð sem er fordæmalaust í íslenskri kvennaknattspyrnu. Liðið vann PEPSI-deild kvenna með níu stiga mun, en fara þarf aftur á síðustu öld til að finna slíka yfirburði.

Gunnhildur Yrsa var kjörinn besti leikmaður keppnistímabilsins 2011 af leikmönnum PEPSI-deildar kvenna og var valin í úrvalslið deildarinnar bæði í fyrri og síðari hluta mótsins. Hún var jafnframt valinn besti leikmaður síðari hluta PEPSI-deildarinnar.

Gunnhildur Yrsa lék sinn fyrsta A-landsleik gegn Norður Írum þann 26. október í 0-2 sigri Íslands. Hún er uppalin í Stjörnunni og hefur aldrei leikið með öðru félagi.

Valinn í lið ársins

Garðar hefur æft knattspyrnu frá unga aldri, hérlendis sem og erlendis sem atvinnumaður. Á nýafstaðinni leiktíð spilaði Garðar 21 leik af 22 í Pepsídeildinni og skoraði 15 mörk. Fyrir þessa frammistöðu hlaut hann Gullskóinn eftirsótta en þann heiður hlýtur sá leikmaður sem skorar flest mörk í Íslandsmóti. Garðar var einnig valinn í lið ársins ásamt tveimur öðrum leikmönnum Stjörnunnar.


Framkoma Garðars er til fyrirmyndar innan vallar sem utan. Innan vallar er hann hvetjandi, með mikinn metnað, gefur sig allan í leikinn og hefur háleit markmið. Utan vallar hefur hann verið góður fulltrúi félagsins í fjölmiðlum og verið óhræddur við að tjá sig um háleit markmið. Einnig hefur hann tekið að sér þjálfun yngri flokka og er leiðandi á þeim vettvangi.

Garðar Jóhannsson og Gunnhildur Yrsa Jónsdóttir, íþróttamenn Garðabæjar 2011