4. jan. 2012

Nýjungar hjá Strætó

Nemakort fyrir grunnskólanema og rauntímakort yfir staðsetningu vagna eru á meðal nýjunga sem Strætó bs. kynnir þessa dagana
  • Séð yfir Garðabæ

Grunnskólanemum með lögheimili á höfuðborgarsvæðinu gefst nú kostur á að kaupa nemakort Strætó bs. sem hingað til hafa einungis verið í boði fyrir nema á framhalds- og háskólastigi.

Sala á nemakortum hófst 27. desember á vef Strætó, www.straeto.is.  Þau gilda frá 1. janúar 2012 til 31. maí. Aðeins er hægt að greiða fyrir kortið með kreditkorti. Nemakortið kostar 15.000 kr. fyrir önnina og er sent heim til þeirra sem það kaupa.

Rauntímakort sýnir hvar vagnar eru

Með nýju rauntímakorti á vef Strætó bs., www.straeto.is/rauntimakort/,  er nú hægt að fylgjast með ferðum strætisvagna í rauntíma. Strætófarþegar geta þar séð hvar vagninn sem þeir ætla að taka sér far með er staddur á hverjum tíma.

GPS-búnaður sem nú er um borð í öllum vögnum gerir rauntímakortið mögulegt. Staðsetning vagnanna er uppfærð á u.þ.b. tíu sekúndna fresti, svo nákvæmnin er mikil. Einnig er unnið að nýrri útgáfu Leiðarvísis á vef Strætó og munu rauntímaupplýsingar einnig verða aðgengilegar þar á næstu mánuðum. Samfara því er ráðgert að bjóða upp á viðbætur (apps) fyrir flestar gerðir snjallsíma sem gerir viðskiptavinum kleift að fylgjast með ferðum vagnanna í farsímanum.

Strætó á Suðurlandi

Frá og með 2. janúar er hægt að ferðast um Suðurland með strætó, allt frá Reykjavík og austur á Höfn í Hornafirði. Þetta er liður í stórfelldri stækkun þjónustusvæðis Strætó bs. í samstarfi við Samtök sunnlenskra sveitarfélaga (SASS). Breytingin felur í sér að eitt samtengt leiðakerfi verður allt frá Höfn í Hornafirði og til Reykjavíkur, um uppsveitir Árnessýslu, niður í Þorlákshöfn og Landeyjahöfn.

Nánari upplýsingar um þessar nýjungar hjá Strætó eru á vef Strætó, www.straeto.is.