28. mar. 2014

Hátíðleg lokahátíð Stóru upplestrarkeppninnar

Lokahátíð Stóru upplestrarkeppninnar fór fram í Kirkjuhvoli, safnaðarheimili Vídalínskirkju, í Garðabæ miðvikudaginn 26. mars sl. Nemendur úr sjöunda bekk í Garðabæ og Seltjarnarnesi kepptu á lokahátíðinni.
  • Séð yfir Garðabæ

Lokahátíð Stóru upplestrarkeppninnar fór fram í Kirkjuhvoli, safnaðarheimili Vídalínskirkju, í Garðabæ miðvikudaginn 26. mars sl. Nemendur úr sjöunda bekk í Garðabæ og Seltjarnarnesi kepptu á lokahátíðinni.

Á lokahátíðinni fengu 13 nemendur úr Álftanesskóla, Flataskóla, Hofsstaðaskóla, Sjálandsskóla, Vífilsskóla og Valhúsaskóla (grunnskóli Seltjarnarness) að spreyta sig á upplestri á fyrirfram ákveðnum texta.  Í ár var lesið upp úr sögunni Ertu Guð, afi? eftir Þorgrím Þráinsson rithöfund og ljóð eftir Erlu (Guðfinnu Þorsteinsdóttur) ljóðskáld. Í síðustu umferðinni fengu nemendur einnig að lesa ljóð að eigin vali.

Auk upplesturs keppenda var boðið upp á fjölmörg skemmtiatriði frá skólunum sem tóku þátt, tónlistarflutning og dansatriði. Í lok hátíðar afhenti Gunnar Einarsson bæjarstjóri Garðabæjar öllum lesurunum bók að viðurkenningu fyrir þátttökuna. Bókin var gjöf frá Félagi íslenskra bókaútgefenda. Að vanda var erfitt að velja þrjá lesara úr hópnum en formaður dómnefndar Hanna Óladóttir og tilkynnti um val dómnefndar í lokin og afhenti sigurvegurunum viðurkenningu Radda samtaka um vandaðan upplestur og framsögn og fulltrúi Íslandsbanka Erlingur Þór Tryggvason afhenti peningaverðlaun frá bankanum. 

Í fyrsta sæti var Kári Rögnvaldsson úr Valhúsaskóla, í öðru sæti var Sigurlaug Brynjúlfsdóttir einnig úr Valhúsaskóla og í þriðja sæti var Gunnar Bergmann Sigmarsson úr Flataskóla.

Stóra upplestrarkeppnin um land allt

Lokahátíðir Stóru upplestrarkeppninnar eru haldnar um land allt í mars mánuði en undirbúningur hefst formlega á degi íslenskrar tungu þann 16. nóvember og nemendur læra að leggja rækt við góðan upplestur. Hátíðarhlutinn er það sem kalla mætti hina eiginlegu „keppni“. Haldin er upplestrarhátíð í hverjum skóla í lok febrúar þar sem einn til þrír nem­endur eru valdir til áframhaldandi þátttöku í keppninni fyrir hönd skólans. Stóru upplestrarkeppni lauk svo formlega með lokahátíðinni í Kirkjuhvoli í mars.