16. des. 2011

Saga Garðabæjar afhent

Bæjarstjóri Garðabæjar skrifaði í gær undir samning við Bókaútgáfuna Opnu um að búa Sögu Garðabæjar til útgáfu sem stefnt er að á árinu 2013.
  • Séð yfir Garðabæ

Bæjarstjóri Garðabæjar skrifaði í gær undir samning við Bókaútgáfuna Opnu um að búa Sögu Garðabæjar til útgáfu sem stefnt er að á árinu 2013. Steinar J. Lúðvíksson hefur unnið að ritun sögunnar fyrir Garðabæ undanfarin ár en í gær afhenti hann forseta bæjarstjórnar Garðabæjar handrit að verkinu upp á hátt í 3000 blaðsíður.

Forlagsritstjórn og umbrot

Samkvæmt samningnum sér Opna um forlagsritstjórn verksins. Í því felst að ritstjóri frá Opnu les handritið rækilega yfir, ráðleggur um efnisskipan, hugsanlegar styttingar o.fl., í samráði við höfund verksins. Opna sér einnig um hönnun verksins og umbrot, prófarkalestur, samanburð og lokafrágang prófarkar til prentunar.

Byggir á munnlegum og rituðum heimildum

Í Sögu Garðabæjar er saga svæðisins rakin frá tímum Álftaneshrepps hins forna til ársins 2010. Farið er yfir sögu byggðar og mannlífs á svæðinu, rakin saga atvinnulífs, menningar og stjórnmála svo eitthvað sé nefnt auk þess sem sagt er frá náttúrufari, jarðfræði og staðháttum. Í máli höfundar kom fram að hann hefði við ritunina átt samtöl við fjölda fólks sem hefur lifað og starfað á þessu svæði og byggi frásögn sína þannig bæði á rituðum og munnlegum heimildum. Þá naut hann góðrar leiðsagnar frá ritnefnd en í henni situr fólk sem hefur allt átt hlut að sögu svæðisins, en það eru Laufey Jóhannsdóttir, Ólafur G. Einarsson og Hilmar Ingólfsson, sem tók við af Sigurði Björgvinssyni árið 2008.

Áætluð verklok samkvæmt samningnum eru 31. desember 2012 en þá á verkið að vera tilbúið til prentunar. Gert er ráð fyrir að Saga Garðabæjar komi út á árinu 2013.

Gunnar Einarsson bæjarstjóri og Sigurður Svavarsson frá Bókaútgáfunni Opnu undirrita samning um Sögu Garðabæjar

Gunnar Einarsson bæjarstjóri og Sigurður Svavarsson frá Bókaútgáfunni Opnu undirrita samninginn.