14. des. 2011

Fyrstu verðlaun í landskeppni eTwinning

Hofsstaðaskóli hlaut fyrstu verðlaun í landskeppni eTwinning, áætlunar ESB um rafrænt skólasamstarf, í flokki grunn- og leikskóla skólaárið 2010-2011, fyrir verkefnið „Gefðu mér knús" (Give me a hug).
  • Séð yfir Garðabæ

Hofsstaðaskóli hlaut fyrstu verðlaun í landskeppni eTwinning, áætlunar ESB um rafrænt skólasamstarf, í flokki grunn- og leikskóla skólaárið 2010-2011, fyrir verkefnið „Gefðu mér knús" (Give me a hug). Úrslitin voru tilkynnt á afmælishátíð Menntaáætlunar Evrópusambandsins í Háskóla Íslands, 9. desember sl.

Verkefnið var unnið af nemendum í 5. R.S skólaárið 2010-2011. Verðlaunin voru vegleg eða 150.000 kr. gjafabréf í Tölvulistanum sem án efa á eftir að koma í góðar þarfir.

Fléttar saman margar námsgreinar

Í verkefninu fléttast saman ýmsar greinar s.s. list- og verkgreinar, saga, landafræði, tungumál og upplýsingatækni. Alls taka þátt 23 skólar frá 21 landi og eru nemendurnir 4 -12 ára gamlir.

Meðan á verkefninu stendur vinna þátttökuskólarnir ýmis konar verkefni; taka myndir, teikna, lita og nýta sér margmiðlun. Lítill bangsi, sem gengur undir nafninu Columbus, ferðast á milli þátttökuskólanna og kynnir sér þjóð og staðhætti í hverju landi. Þegar bangsinn kemur í hvern skóla er hann fylltur af gögnum sem nemendur hafa útbúið og síðan sendur áfram. Þannig gefst krökkunum tækifæri til að deila verkefnum, læra hvert um annað og fylgjast með ferðalagi bangsans um Evrópu. Með þessu móti gefst spennandi tækifæri til að kynnast mörgum Evrópulöndum.

Lesa má nánar um verkefnið á vefsíðu skólans.

Virkir þátttakendur í lifandi verkefni

Í umsögn dómnefndar um verkefnið segir m.a. "Áhugavert er að sjá hve vel kennurunum hefur tekist að halda áhuga og virkni barnanna þrátt fyrir fjöldann sem stendur að verkefninu en í því taka þátt 23 skólar frá 21 landi. Verkefnið lifir góðu lífi og nemendur Hofsstaðaskóla eru þar enn virkir þátttakendur. Verkefnið er frábært dæmi um hvernig gera má kennsluna skemmtilegri og vekja áhuga barna á landafræði, menningu og upplýsingatækni með skapandi skólastarfi. Hér er á ferðinni gott dæmi um hvernig gera má námið spennandi á líflegan og gagnvirkan hátt."

Nánari upplýsingar

Frétt um úrslitin á íslenskri síðu eTwinning.

 

Kynningar frá afmælishátíð Menntaáætlunar Evrópusambandsins þar sem úrslitin voru tilkynnt

 

Vefsíða verkefnisins er hér: http://givemeahugetwinning.blogspot.com/  

 

Verkefni nemenda 5. R.S. er hægt að skoða á vef verkefnisins og á myndasíðu bekkjarins skólaárið 2010-2011 má sjá myndirnar sem teknar voru meðan á verkefninu stóð.

 

Á myndinni hér fyrir neðan er Ragnheiður Stephensen með verðlaunin sem skólinn fékk fyrir þátttöku sína í verkefninu.

Ragnheiður Stephensen kennari með verðlaunaskjalið

 

 

 

 

 

 

 

 


Bangsinn Columbus sóttur á pósthúsið

Columbus sóttur á pósthúsið

Columbus fékk gott knús eftir ferðalagið frá Wales

Columbus fékk gott knús eftir ferðalagið frá Wales. Hann færði nemendum Hofsstaðaskóla mörg flott verkefni frá nemendunum í Wales, m.a. má sjá fána landsins á myndinni.

Verkefni íslensku nemendanna sett í Columbus áður en hann fer af stað í næstu ferð

Columbus fékk síðan fullt af íslenskum verkefnum frá nemendum Hofsstaðaskóla til að færa öðrum börnum í Slóveníu en þangað lá leið hans frá Íslandi.