27. mar. 2014

Vor í lofti í Klifinu

Í frétt frá Klifinu er sagt frá nýjum styttri námskeiðum og smiðjum fyrir börn og vornámskeiðum fyrir kennara
  • Séð yfir Garðabæ

Frétt frá Klifinu

Í vor verður boðið upp á styttri námskeið og smiðjur fyrir börn í Klifinu. Vornámskeiðin eru 5 – 6 vikur að lengd.

Ýmislegt verður á döfinni og má þar nefna: Fjölbreytt dansnámskeið fyrir 3 - 16 ára, vísindasmiðju, hlutverkaleiki, hetjuspil, Zumba fyrir börn og fullorðna og kassabílasmiðju fyrir fjölskyldur.

Við skorum á stráka!

Í vor skorum við á stráka að prufa dans í stuttum danssmiðjum. Þar verður blandað saman breakdansi með kraftmiklu nútímaívafi. Dansararnir Leifur Eiríksson (Ljósvaki) og Guðmundur Elías Knudsen (Dans kafteinn í Mary Poppins og hreyfimeistari í Algjör Sveppi, dagur í lífi drengs) ætla að sýna og sanna að strákar geta dansað og þurfa ekki að byrja þegar þeir eru fimm ára. Hver dansar að sinni getu, og sjá þá að þeir geta miklu meira en þeir halda. Strákar hafa kraft og styrk sem auðveldlega er hægt að nota og búa til kraftmikinn dans. Eina sem þarf er smá hugrekki og að læra að flæða með hreyfingunum.

Vornámskeið fyrir kennara

Klifið heldur áfram að þróa námskeið fyrir fagfólk í skólum. Í apríl verða haldin námskeið í skapandi skrifum, eflandi kennslufræði nýsköpunar- og frumkvöðlamenntar og fjársjóðsleitinni fyrir leiðbeinendur.

Skráningar á námskeið fara fram á www.klifid.is  og í síma 565 0600.

Merki Kilfsins, skapandi fræðsluseturs í Garðabæ