1. des. 2011

Öflug nágrannavarsla í Garðabæ

Nágrannavarsla er hvergi á höfuðborgarsvæðinu jafn virk og í Garðabæ, að mati Stefáns Eiríkssonar lögreglustjóra. Stefán var gestur á fundi götustjóra í Garðabæ í gær
  • Séð yfir Garðabæ

Nágrannavarsla er hvergi á höfuðborgarsvæðinu jafn virk og í Garðabæ, að mati Stefáns Eiríkssonar lögreglustjóra. Stefán var gestur á fundi götustjóra í Garðabæ í gær en götustjórarnir sjá um að halda utan um og skipuleggja nágrannavörsluna í bænum. Yfir eitt hundrað manns mættu á fundinn sem sýnir áhuga manna á að hafa vörsluna virka í sínum götum.

Nágrannavarsla skilar árangri

Könnun sem send var til götustjóra fyrir fundinn í gær sýnir að hátt í 80% þeirra telja að nágrannavarslan hafi skilað árangri í Garðabæ. Árangurinn lýsir sér fyrst og fremst með því að íbúar eru meðvitaðri um það sem á sér stað í götunni þeirra og nánasta umhverfi. Á fundinum staðfesti lögreglan þennan árangur, sem hún mælir með fjölda tilkynninga í neyðar- og þjónustunúmerið 112 úr Garðabæ en hann hefur aukist umtalsvert frá því að formlegri nágrannavörslu var komið á í bænum. Helsta boðorð nágrannavörslunnar er einmitt að vera vakandi fyrir umhverfi sínu og láta strax vita af grunsamlegum mannaferðum og/eða bílaumferð um götuna í 112. Á þann hátt er í mörgum tilfellum hægt að koma í veg fyrir innbrot og skemmdarverk.

Skilti við innakstursleiðir


Á fundinum í gær, sem haldinn var í Sjálandsskóla, var boðið upp á fræðsluerindi frá afbrotafræðingi, sem ræddi m.a. um hlutverk götustjóra og forvarnir. Stöðvarstjóri lögreglustöðvarinnar í Hafnarfirði fór yfir tölfræði um innbrot í Garðabæ síðustu ár og einn götustjóranna sagði frá reynslu sinni af því að halda utan um nágrannavörslu í sinni götu. Þá ræddi Stefán Eiríksson lögreglustjóri við fundarmenn og hvatti götustjórana til áframhaldandi dáða. Góðar umræður sköpuðust á fundinum og var m.a. ákveðið að setja upp stór skilti við innakstursleiðir í bæinn þar sem vakin er athygli á að í bænum er virk nágrannavarsla og að auka upplýsingaflæði á milli lögreglu, bæjaryfirvalda og götustjóra.

Tengiliðir við bæinn


Garðabær hóf innleiðingu á nágrannavörslu í hverfum bæjarins haustið 2008. Frá þeim tíma hafa verið haldnir fundir með íbúum í öllum hverfum bæjarins. Á kynningarfundunum eru valdir götustjórar, að lágmarki einn úr hverri götu, sem eru tengiliðir sinnar götu við bæinn og sjá um að uppfræða nýja íbúa um nágrannavörsluna. Fundurinn í gær er annar fundurinn sem Garðabær boðar til með götustjórum.

Þeir sem vilja kynna sér hlutverk götustjóra eða fá upplýsingar um götustjóra í sinni götu geta haft samband við upplýsingastjóra Garðabæjar í netfangið: gudfinna@gardabaer.is

 

Frá fundi götustjóra 30. nóv. 2011

Gunnar Einarsson bæjarstjóri setti fundinn og þakkaði götustjórum fyrir þeirra framlag til öruggari Garðabæjar.

Frá fundi götustjóra 30. nóv. 2011

Sigurður Jónmundsson, götustjóri í Hofslundi sagði frá reynslu sinni af hlutverki götustjóra.

Frá fundi götustjóra 30. nóv. 2011

Stefán Eiríksson, lögreglustjóri ræddi við götustjórana. Vinstra megin á myndinni er Pétur Guðmundsson afbrotafræðingur sem flutti fræðsluerindi á fundinum en á móti honum er Ólafur Emilsson, stöðvarstjóri lögreglustöðvarinnar í Hafnarfirði.