30. nóv. 2011

Nýr göngustígur í Garðahrauni

Nýlagður göngustígur í Garðahrauni opnar leið fólks uppí Urriðaholt, þar með talið í Kauptúnið og í Heiðmörkina. Göngustígurinn er malbikaður og með lýsingu.
  • Séð yfir Garðabæ

Nýlagður göngustígur í Garðahrauni opnar leið fólks uppí Urriðaholt, þar með talið í Kauptúnið og í Heiðmörkina. Göngustígurinn er malbikaður og með lýsingu.

Stígurinn liggur þvert á Atvinnubótastíginn svokallaða, sem er ein af söguminjum í Garðabæ. Til að hlífa Atvinnubótastígnum var byggður yfir hann timburpallur eða brú. Pallurinn er breiðari en nýi göngustígurinn og á honum er bekkur. Þannig getur hann nýst sem áningarstaður en frá honum er útsýni til Nónvörðurnar í Garðahrauni og til byggðarinnar á Flötum.

Lagður í atvinnubótavinnu árið 1918

Atvinnubótastígurinn er um 8 metrar á breidd, með vönduðum hleðslum yfir hraungjótur. Varðveist hafa af honum um 420 lengdarmetrar í Garðahrauni en upphaflega átti hann að liggja frá Suðurlandsbraut í Reykjavík að Lækjargötu í Hafnarfirði. Vinna við stíginn hófst 1. febrúar 1918 en haustið áður ákvað ríkisstjórnin að veita sveitastjórnum dýrtíðarlán til að ráðast í framkvæmdir svo að hægt væri að ráða atvinnulausa fjölskyldumenn í vinnu. Vegurinn átti að vera 7 metra breiður þannig að hægt væri að leggja járnbrautarteina á eystri hluta hans en vestari hlutinn var ætlaður almennri umferð ökutækja og reiðmanna. Vegurinn var aldrei kláraður enda tóku önnur verkefni við þegar atvinnulífið tók aftur að glæðast.

Saga Atvinnubótastígsins er rakin á vef Hraunavina.


Timburbrú yfir Atvinnubótastíginn í Garðahrauni

Timburpallurinn/brúin sem liggur yfir Atvinnubótastíginn