28. nóv. 2011

Ljósin tendruð á jólatrénu

Laugardaginn 26. nóvember sl. voru ljósin tendruð á vinabæjarjólatrénu á Garðatorgi. Jólatréð er gjöf frá Asker, vinabæ Garðabæjar í Noregi. Fjölmennt var í miðbæjargarðinum á Garðatorgi í fallegu vetrarveðri. Í upphafi dagskrár lék Blásarasveit Tónlistarskóla Garðabæjar fyrir gesti og að því loknu bauð Katrín Káradóttir formaður Norræna félagsins í Garðabæ alla velkomna.
  • Séð yfir Garðabæ

Laugardaginn 26. nóvember sl. voru ljósin tendruð á vinabæjarjólatrénu á Garðatorgi. Jólatréð er gjöf frá Asker, vinabæ Garðabæjar í Noregi, og þetta er í 42. sinn sem Garðbæingar fá þessa vinasendingu þaðan. 

Fjölmennt var í miðbæjargarðinum á Garðatorgi í fallegu vetrarveðri. Í upphafi dagskrár lék Blásarasveit Tónlistarskóla Garðabæjar fyrir gesti og að því loknu bauð Katrín Káradóttir formaður Norræna félagsins í Garðabæ alla velkomna.  Sendiherra Noregs á Íslandi Dag Vernø Holter afhenti tréð fyrir hönd Asker og Áslaug Hulda Jónsdóttir, forseti bæjarstjórnar Garðabæjar, veitti trénu viðtöku. Skólabörn úr Hofsstaðaskóla sungu falleg jólalög þegar ljósin voru tendruð á jólatrénu. Í lokin komu svo þeir Giljagaur og Stekkjarstaur í heimsókn og skemmtu viðstöddum með leik og söng. 

Jólamarkaður á Garðatorgi

Fyrr um daginn var einnig mikið um að vera í miðbæ Garðabæjar.  Í Bókasafni Garðabæjar var að venju boðið upp á barnaleikrit og í ár sýndi Möguleikhúsið jólaleikritið ,,Jólarósir Snuðru og Tuðru".  Í Hönnunarsafni Íslands stendur nú yfir jólasýningin Hvít Jól og í tilefni dagsins var ókeypis aðgangur fyrir gesti og gangandi.  Í göngugötunni á Garðatorgi var sannkölluð markaðsstemmning á jólamarkaðnum sem stendur alla föstudaga og laugardaga fram að jólum.  Einnig voru margir sem kíktu við í verslunum og vinnustofum listamanna á torginu.  

 

Í myndasafninu er hægt að sjá fleiri myndir frá laugardeginum.