18. nóv. 2011

Í sama liði

Íbúafundur um málefni fatlaðs fólks í Garðabæ og á Álftanesi verður haldinn í Sjálandsskóla 24. nóv. Fundurin er liður í stefnumótun í málaflokknum
  • Séð yfir Garðabæ

Á opnum fundi með íbúum í Garðabæ og á Álftanesi sem haldinn verður í Sjálandsskóla fimmtudaginn 24. nóvember, undir yfirskriftinni Í sama liði, hefst vinna við mótun stefnu sveitarfélaganna í málefnum fatlaðs fólks.

Á fundinum verður kynnt sú þjónusta sem fötluðu fólki býðst í sveitarfélögunum tveimur í dag og gefið yfirlit yfir málaflokkinn. Að því loknu hefst sjálf stefnumótunarvinnan þar sem leitað verður eftir hugmyndum fundarmanna um hvernig þeir vilja sjá þjónustuna þróast.

Hvernig þjónustu vilt þú?

Í stefnumótunarvinnunni verður unnið í litlum hópum sem fjalla annars vegar um þjónustu við fötluð börn og hins vegar um málefni fullorðins fatlaðs fólks. Í báðum tilfellum verður varpað fram spurningum um hverju megi breyta í þjónustunni eins og hún er skipulögð í dag. Jafnframt verða þátttakendur beðnir um að velta því fyrir sér hvernig þeir vildu sjá þjónustunni hagað væru þeir að skipuleggja hana alveg frá grunni.

Eitt þjónustusvæði

Sveitarfélögin tóku við rekstri málefna fatlaðs fólks frá ríkinu um síðustu áramót og eru því að stíga sín fyrstu skref við mótun þjónustunnar. Sveitarfélögin Garðabær og Álftanes mynda eitt þjónustusvæði í málefnum fatlaðs fólks og boða því saman til þessa fundar. Það er afar mikils virði að fá fram sjónarmið fatlaðs fólks og aðstandenda þeirra í stefnumótunarvinnunni framundan og því eru þeir sérstaklega hvattir til að mæta.

Fundurinn verður haldinn í Sjálandsskóla, fimmtudaginn 24. nóvember kl. 17-19.

Dagskrá fundarins.