10. nóv. 2011

Sjálandsskóli og Gunnlaugur verðlaunuð

Sjálandsskóla fékk Íslensku menntaverðlaunin í ár í flokknum Skóli sem sinnt hefur nýsköpun eða farsælu samhengi í skólastarfi. Gunnlaugur Sigurðsson, fyrrverandi skólastjóri Garðaskóla hlaut verðlaunin í flokknum Kennari sem skilað hefur merku ævistarfi.
  • Séð yfir Garðabæ

Garðabær var áberandi þegar forseti Íslands afhenti Íslensku menntaverðlaunin í gær. Verðlaunaathöfnin fór fram í Sjálandsskóla sem hlaut jafnframt verðlaunin í ár í flokknum Skóli sem sinnt hefur nýsköpun eða farsælu samhengi í skólastarfi. Gunnlaugur Sigurðsson, fyrrverandi skólastjóri Garðaskóla hlaut einnig verðlaun, í flokknum Kennari sem skilað hefur merku ævistarfi.

 

Í flokknum um ungt fólk sem við upphaf kennsluferils síns hefur sýnt hæfileika hlaut verðlaunin Karólína Einarsdóttir kennari í Akurskóla í Reykjanesbæ. Í flokknum um höfunda námsefnis hlutu verðlaunin Guðbjörg Pálsdóttir, Guðný Helga Gunnarsdóttir, Jónína Vala Kristinsdóttir og Guðrún Angantýsdóttir fyrir námsefnið Geisla.

 

Kastljósið var í Sjálandsskóla í gær og talaði við verðlaunahafana.

 

Sjálandsskóli

Í fréttatilkynningu frá skrifstofu forseta Íslands segir að starfi Sjálandsskóla hafi frá upphafi, árið 2005, verið sett afar metnaðarfull markmið. Áhersla hafi verið lögð á einstaklingsmiðað nám, fjölbreytta, sveigjanlega og lýðræðislega kennsluhætti, sköpun og tjáningu.

Þar segir einnig: "Skólabyggingin sjálf er einstakt umhverfi utan um þetta metnaðarfulla starf. Kennslurýmin eru opin og áhersla lögð á að nemendur taki þátt í að skipuleggja námið. Þeir gera sér námsáætlanir í samstarfi við kennara sína og bera meiri ábyrgð á starfi sínu en víða gerist. Fáir skólar bjóða jafn fjölbreytt og áhugavert val á unglingastigi. Þar geta nemendur valið milli 50 ólíkra viðfangsefna; útieldun, ítölsk matargerð, skartgripagerð, kajakróður, franska, sagnfræði og fatahönnun eru dæmi um þetta fjölbreytta val sem stenst fyllilega samjöfnuð við það sem gerist í fjölmennustu skólunum."

Í greinargerð dómnefndar kemur einnig fram að kennarar Sjálandsskóla hafi verið leiðandi í umbótastarfi og að framsæknar hugmyndir þeirra hafa vakið athygli út fyrir skólann.


Greinargerð dómnefndar um Sjálandsskóla er á vef forseta Íslands.

 

Gunnlaugur Sigurðsson

Gunnlaugur Sigurðsson, fyrrverandi skólastjóri í Garðaskóla er mörgum Garðbæingum kunnugur. Gunnlaugur hlaut í gær Íslensku menntaverðlaunin fyrir merkt ævistarf. Gunnlaugur gegndi starfi skólastjóra í Garðaskóla í Garðabæ allt frá stofnun skólans árið 1966 til ársins 2003.

Í greinargerð dómefndar segir að Gunnlaugur hafi á starfsferli sínum markað djúp spor í skólasögu Gaðrðabæjar sem og landsins alls. Hann sé hugsjónamaður sem hafi verið langt á undan sinni samtíð með ýmsa þætti skólastarfsins. "Gunnlaugur er leiðtogi sem í krafti sannfæringar sinnar kom í verk fjölmörgum framsæknum nýjungum og breytingum sem í dag þykja eðlilegar í almennu skólastarfi. Með hugrekki og hugsjón skilað hann merku ævistarfi og verðmætu framlagi til menntamála á Íslandi."


Greinargerð dómnefndar um starfsferil Gunnlaugs.

Á vef Sjálandsskóla er sagt frá verðlaunaafhendingunni og þar er einngi hægt að skoða fleiri myndir.

 

Gunnlaugur Sigurðsson tekur við Íslensku menntaverðlaununum 2011

Gunnlaugur Sigurðsson, fyrrverandi skólastjóri Garðaskóla tekur við Íslensku menntaverðlaununum fyrir merkt ævistarf úr hendi Ólafs Ragnars Grímssonar, forseta Íslands.

Sjálandsskóli tekur við Íslensku menntaverðlaununum 2011

Edda Björg Sigurðardóttir, starfandi skólastjóri Sjálandsskóla og Helgi Grímsson skólastjóri taka við Íslensku menntaverðlaununum fyrir hönd Sjálandsskóla 2011.

Kór Sjálandsskóla söng við afhendingu Íslensku menntaverðlaunanna 2011

Kór Sjálandsskóla söng við athöfnina.