8. nóv. 2011

Gegn einelti í Garðabæ

Grunnskólar Garðabæjar taka þátt í baráttudegi gegn einelti sem er 8. nóvember. Í skólunum eru unnin verkefni um vináttuna og um einelti og skaðleg áhrif þess.
  • Séð yfir Garðabæ

Grunnskólar Garðabæjar taka þátt í baráttudegi gegn einelti sem er 8. nóvember. Í skólunum eru unnin verkefni um vináttuna og um einelti og skaðleg áhrif þess.

Vinavika í Sjálandsskóla

Sem dæmi má nefna að í Sjálandsskóla er vinavika alla þessa viku. Margt verður gert til að efla vináttu, virðingu og jákvæð samskipti. Meðal annars fékk skólinn heimsókn frá Umboðsmanni barna og efnt verður til ljóða- og sögusamkeppni sem tengist vináttu. Allir nemendur og starfsfólk taka þátt í vinavikunni með fjölbreyttum verkefnum.

Í Hofsstaðaskóla eru kennarar hvattir til að vekja nemendur til umhugsunar um málefnið og vinna verkefni eða ræða saman um einelti, einkenni þess, afleiðingar og leiðir til lausna.

Í Flata- og Garðaskóla er einnig unnið með vináttuna og skaðleg áhrif eineltis á fjölbreyttan hátt.

Samræmd áætlun gegn einelti í Garðabæ

Allir skólar Garðabæjar vinna samkvæmt samræmdri áætlun gegn einelti í Garðabæ. Áætlunin er undir stjórn sameiginlegs stýrihóps allra skólanna. Markmið verkefnisins er að koma á samræmdum vinnubrögðum til að fyrirbyggja og bregðast við einelti, bæta líðan og öryggi nemenda og skólabraginn í heild. Unnar hafa verið áætlanir og skilgreiningar um hvernig starfsmenn eiga að bregðast við einelti og vinna með það.

 

Einn liður í áætluninni er að foreldrar og aðrir gert tilkynnt um einelti eða grun um einelti á þar til gerðu eyðublaði og afhent það þeim aðila sem þeir treysta best til að fylgja málinu eftir. Á vefsíðum allra skólanna eru upplýsingar um eineltisáætlunina og þar er hægt að nálgast eyðublaðið. Sjá t.d. á vef Garðaskóla.

Verkefni um einelti

Hér fyrir neðan er lýst áhrifaríku verkefni frá Hofsstaðaskóla sem sýnir á táknrænan hátt fram á skaðsemi eineltis.

 

Kennari lætur hvern nemanda fá autt hvítt blað. Hann biður nemendur um að hnoða blaðið, kuðla því saman og trampa svo á því til að skemma það eins og þau geta, bara ekki að rífa niður. Svo lætur hann nemendur breiða úr pappírnum og reyna að slétta krumpurnar, en ekki síst, virða fyrir sér hvernig þeir hafa skemmt pappírinn og gera sér grein fyrir hvað hann var orðinn óhreinn. Síðan segir kennarinn nemendum að biðja pappírinn afsökunar. Hversu mikið sem þeir biðja pappírinn afsökunar og reyna að laga það sem þeir hafa krumpað og óhreinkað, þá hverfa skemmdirnar ekki. Kennarinn fær nemendur til að ræða og skilja að hvað sem þeir reyndu eða vildu slétta og laga það sem þeir hafa gert við pappírinn, mun hann aldrei lagast og að búið sé að skemma hann varanlega.  Þetta er einmitt það sem gerist þegar einelti er beitt gegn öðrum. Hversu oft sem gerandinn biður fórnarlambið afsökunar, þá eru örin komin til að vera og fylgja fórnarlömbunum allt þeirra líf.