14. okt. 2011

Blómlegt starf í Hönnunarsafninu

Tvær sýningar eru nú í Hönnunarsafni Íslands. Annars vegar sýning á verkum finnska hönnuðarins Piu Holm og hins vegar sýningin Hlutirnir okkar þar sem sýndir eru valdir gripir úr eigu safnsins.
  • Séð yfir Garðabæ

Tvær sýningar eru nú í Hönnunarsafni Íslands. Annars vegar sýning á verkum finnska hönnuðarins Piu Holm og hins vegar sýningin Hlutirnir okkar þar sem sýndir eru valdir gripir úr eigu safnsins.

Leiðsögn um Hlutina okkar

Sunnudaginn 16. október kl. 14 verður boðið upp á leiðsögn um sýninguna Hlutina okkar. Elísabet V. Ingvarsdóttir hönnunarfræðingur mun þá ganga um sýninguna með safngestum. Fyrir augu ber ýmsa gripi sem margir ættu að kannast við og þekkja án þess að hafa endilega tengt þá hönnunarsögu okkar. Á sýningunni er lögð áhersla á að sýna íslensk húsgögn frá ólíkum tímabilum síðustu aldar ásamt því að nokkur dæmi um grafíska hönnun úr safneign safnsins eru sýnd, íslensk leirlist og nýleg íslensk vöruhönnun.

Mynstur úr náttúrunni


Pia Holm er myndskreytir og textílhönnuður. Hún hefur um árabil unnið fyrir stór norræn fyrirtæki, meðal annars fyrir hið heimsþekkta fyrirtæki MARIMEKKO og einnig undir eigin merki happydesign.fi. Piu er náttúran hugleikin en flest mynstur  hennnar byggja á blómum eða öðrum undrum náttúrunnar. Á sýningunni í Hönnunarsafninu er hægt að skoða ýmis verk Piu en mynstur hennar hafa verið notuð á ólíkar vörur, t.d. sængurföt, eldhúsvörur og áklæði.

Í Fréttablaðinu fimmtudaginn 13. október 2011 var skemmtilegt viðtal við Piu Holm.

Tímamótahús í Garðabæ

Hönnunarsafn Íslands stendur fyrir fræðsludagskrá nú í október. Þegar hafa verið haldnir tveir fyrirlestrar og sá þriðji og síðasti í þessari röð verður þriðjudaginn 18. október. Í honum fjallar Pétur H. Ármannsson um íslenska byggingarlist á 7. áratugnum í erindi sem hann kallar "Tímamótahús 7. áratugarins í Garðabæ". Í fyrirlestrinum setur Pétur íslenska byggingarlist í samhengi við sögu Garðabæjar og þróun byggðar á Höfuðborgarsvæðinu.

 

Hönnunarsafn Íslands er opið alla daga nema mánudaga kl. 12-17.