22. sep. 2011

Starf nýs leikskóla í mótun

Akrar er nýr leikskóli í Akrahverfinu í Garðabæ sem tekur til starfa í byrjun árs 2012. Í leikskólanum verða 100 börn. Garðabær auglýsir nú eftir starfsfólki til starfa á nýja leikskólanum.
  • Séð yfir Garðabæ

Akrar er nýr leikskóli í Akrahverfinu í Garðabæ sem tekur til starfa í byrjun árs 2012. Í leikskólanum verða 100 börn. Garðabær auglýsir nú eftir starfsfólki til starfa á nýja leikskólanum.

Virkni og vellíðan

Sigrún Sigurðardóttir var í sumar ráðin leikskólastjóri á Ökrum og kom hún til starfa 1. september sl. til að undirbúa starf skólans. Hún segir að grunngildi leikskólans hafi þegar verið ákveðin en þau eru, virkni og vellíðan. "Vellíðan barna verður höfð í fyrirrúmi enda verður börnunum að líða vel svo þau geti blómstrað í leikskólanum. Starfið verður svo skipulagt út frá þátttöku og virkni barnanna og gengið út frá því að þau hafi eitthvað til málanna að leggja um allt sem varðar þeirra mál," segir Sigrún.  Hún bætir því við að sköpun, læsi, útikennsla og tenging við samfélagið muni skipa stóran sess í starfinu.

"Til að þetta gangi vel þarf starfsfólk sem er tilbúið að taka þátt í mótun og uppbyggingu starfsins ásamt börnunum og foreldrum þeirra. Í sameiningu sköpum við menningu þar sem öllum líður vel; börnum, starfsfólki og foreldrum," segir Sigrún. 

Húsnæðið styður við daglegt leikskólastarf

Við hönnun húsnæðis skólans var tekið mið f því að það skapaði umgjörð um fjölbreytt leikskólastarf. "'Í daglegu leikskólastarfi fara börnin á milli ólíkra verkefna, þau eru í skapandi starfi, rólegri leikjum og hreyfileikjum og þurfa líka að hafa gott næði til næringar og hvíldar. Húsnæðið er hannað til að styðja við þessar ólíku þarfir. Lóðin býður líka upp á marga möguleika. Hún snýr til suðurs og leiksvæði barnanna verður því sólríkt og jafnframt fjölbreytt. Timburpallur verður við húsið að framanverðu og ekki má gleyma því að í nærumhverfi skólans eru mörg tækifæri til gönguferða og útikennslu sem hægt er að nýta til viðbótar við garðinn," segir Sigrún. 

Hönnun húsnæðisins var í höndum arkitektana Kristínar B. Gunnarsdóttir og Steffans Iwersen á Arkitektastofunni Einrum en um lóðarhönnun sá Emil G Guðmundsson hjá Suðaustanátta.