16. sep. 2011

Ný gönguleið kynnt

Dagur íslenskrar náttúru er haldinn hátíðlegur í dag föstudaginn 16. september. Í Garðabæ var haldið upp á daginn með því að efna til göngu frá Garðatorgi upp að húsi Náttúrufræðistofnunar Íslands í Urriðaholti.
  • Séð yfir Garðabæ

Dagur íslenskrar náttúru er haldinn hátíðlegur í dag föstudaginn 16. september. 

Í Garðabæ var haldið upp á daginn með því að efna til göngu frá Garðatorgi að húsi Náttúrufræðistofnunar Íslands í Urriðaholti. Gangan var á vegum umhverfisnefndar Garðabæjar í tilefni af opnun og kynningu á nýrri gönguleið frá Flatahverfi sem tengist upp í Urriðaholt og Heiðmörk með nýjum göngustíg í Garðahrauni.  Erla Bil Bjarnardóttir garðyrkjustjóri var leiðsögumaður í göngunni sem endaði við Urriðaholtið kl. 11 þar sem vel var tekið á móti hópnum.

Daginn ber upp á fæðingardag Ómars Ragnarssonar. Sem frétta- og þáttagerðarmaður hefur hann verið óþreytandi við að opna augu almennings fyrir þeim auðæfum sem felast í náttúru landsins og mikilvægi þess að vernda hana og varðveita. Í tilefni dagsins er fjölbreytt dagskrá í boði víðs vegar um allt land. 

 

 

 

Við hús Náttúrúfræðistofnunar Íslands í Urriðaholti var hátíðarsamkoma umhverfisráðherra þar sem fjölmiðlaverðlaun umhverfisráðuneytisins voru afhent. Verðlaunin hlaut Ragnar Axelsson ljósmyndari fyrir að beina sjónum að náttúrúvernd og samspili manns og náttúru í verkum sínum. Í hádeginu var boðið upp á göngu um Búrfellshraun og nágrenni.


Hamrahlíðarkórinn söng fyrir gesti í húsi Náttúrufræðistofnunar.


Afmælisbarnið Ómar Ragnarsson flutti erindi í tilefni dagsins.


Svandís Svavarsdóttir umhverfisráðherra afhenti sérstök fjölmiðlaverðlaun tileinkuð umfjöllun um íslenska náttúru.



Sjá nánari umfjöllun um Dag íslenskrar náttúru á vef Umhverfisráðuneytisins.