Uppskeruhátíð skólagarðanna
Fjöldi fólks mætti á uppskeruhátíð skólagarðanna í Silfurtúni síðastliðinn laugardag í góðu veðri en þá komu börnin ásamt foreldrum sínum til að taka upp uppskeru sumarsins. Boðið var upp á grillaðar pylsur og ávaxtasafa til að fagna góðu starfi.
Í skólagörðunum í sumar ræktuðu börnin kartöflur og fjölmargar káltegundir og salöt, s.s. hvítkál, brokkolí, hnúðkál, grænkál, laufsalat, íssalat, klettasalat, steinselju, rófur, skrautkál og sumarblóm. Ágætis uppskera var eftir sólríkt sumar.
Leiðbeinendur skólagarðanna í sumar voru Nína Björk Svavarsdóttir eins og undanfarin sumur, Edda Guðrún Gísladóttir og í ágúst kom Freyja Sif Þórisdóttir.
Starfsemi skólagarðanna gekk vel í með góðri þátttöku barna í bænum. Görðum var fjölgað milli ára vegna aukinnar þátttöku og voru þeir alls um 80 talsins.